Pútín á leið til Norður-Kóreu

Vladímír Pútin, forseti Rússlands.
Vladímír Pútin, forseti Rússlands. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heldur á morgun til Norður-Kóreu til fundar við Kim Jong Un, leiðtoga Norður–Kóreu. Stjórnvöld í Kreml greindu frá þessu í dag.

Bæði lönd hafa mátt þola þungar refsiaðgerðir af hálfu vestrænna ríkja en samband þeirra hefur orðið nánara eftir að Rússar hófu árás á Úkraínu í febrúar 2022. 

Úkraínumenn, Suður-Kórea og mörg Vesturlönd hafa sakað Norður–Kóreumenn um að þeir útvegi Rússum vopn í stríðinu gegn Úkraínu í skiptum fyrir matvæli. Þá hafa ráðamenn í Bandaríkjunum og Úkraínu sakað Rússa um að skjóta norðurkóreskum eldflaugum á Úkraínu.

Stjórnvöld í Kreml tala um ferð Pútíns til Norður-Kóreu sem „vinuáttuheimsókn“ en Kim Jong heimsótti Rússland á síðasta ári þar sem umræðuefni leiðtoganna var hernaðarsamvinna þjóðanna.

„Vladimír Pútín forseti mun dagana 18.-19. júní fara til Norður-Kóreu í vinátturíkisheimsókn,“ segir í yfirlýsingu frá Kreml en frá Norður-Kóreu mun Pútín svo halda til Víetnam.

Þetta verður önnur heimsókn Pútíns til Norður-Kóreu en skömmu eftir að hann varð forseti fyrir 24 árum síðan hitti hann Kim Jon Il, föður Kim Jung Un.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert