Neita að halda leik Belgíu gegn Ísrael

Brussel hefur neitað að halda þjóðadeildarleik Ísraels og Belgíu.
Brussel hefur neitað að halda þjóðadeildarleik Ísraels og Belgíu. AFP/Kirill Kudryavtsev

Borgaryfirvöld í Brussel hafa neitað að halda þjóðadeildarleik Ísraels og Belgíu þann 6. september næstkomandi vegna öryggisógna og möguleika á mótmælum. 

Belgíska knattspyrnusambandið samþykkti að halda leikinn á King Baudouin-leikvanginum, á bak við luktar dyr, en segir að borgaryfirvöld í Brussel hafi gripið inn í og neitað að halda leikinn. 

Óttast um öryggi áhorfenda og leikmanna 

„Við hörmum þá ákvörðun sem tekin var af Brussel-borg, sem hefur mikla reynslu af skipulagningu stórviðburða, að halda ekki leikinn á okkar heimavelli,“ sagði knattspyrnusambandið. 

Borgaryfirvöld í Brussel telja það ekki ráðlegt að halda leik sem þennan á meðan stríðið í Gasa er í fullum gangi. Það muni án efa ýta undir mótmæli og leggja öryggi áhorfenda, leikmanna og borgarbúa í hættu. 

Greint er frá því að leit að nýjum leikvangi fyrir leikinn sé þegar hafin. Þá líti ísraelska knattspyrnusambandið svo á að þetta sé ekki þeirra vandi til að leysa heldur Belgíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert