Segir ekki hægt að útrýma Hamas

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers.
Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers. AFP

Talsmaður Ísraelshers sagði í dag að ekki yrði hægt að útrýma Hamas. Staðan vekur skelfingu innan ríkisstjórnarinnar sem árétti í kjölfarið að takmarkið yrði áfram að útrýma palestínska vígahópnum. 

Rúmlega átta mánuðir eru liðnir frá fordæmalausri árás Hamas-samtakanna á Ísrael þann 7. október og enn hefur Ísraelsmönnum ekki tekist að hrekja vígamenn Hamas frá Gasaströndinni. Ísraelsher hefur þrátt fyrir það valdið víðtækri eyðileggingu á svæðinu. 

„Við getum ekki útrýmt hugmyndafræði“

„Að halda því fram að við ætlum að láta Hamas hverfa er eins og að kasta sandi í augu fólks. Ef við bjóðum ekki upp á annan valkost þá munum við á endanum hafa þá,“ sagði Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, í samtali við ísraelsku útvarpsstöðina Channel 13. 

„Hamas er hugmyndafræði, við getum ekki útrýmt hugmyndafræði.“

Ummælum Hagari var fljótlega vísað á bug af skrifstofu Benjamíns Net­anya­hu, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, en ríkisstjórn Net­anya­hu hefur lýst því yfir að sókn Ísraels á Gasa muni ekki ljúka fyrr en búið er að sigra Hamas. 

Síðar í dag skýrði herinn frá því á Telegram-ráð sinni að Hagari hafi verið að ávarpa Hamas sem „hugmyndafræði og að yfirlýsingar hans hafi verið skýrar og eindregnar“.

„Aðrar fullyrðingar eru til þess fallnar að taka yfirlýsingu Hagari úr samhengi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert