Ákærðir fyrir að nauðga 12 ára stúlku

12 ára gyðingsstúlku var nauðgað af 13 ára drengjum.
12 ára gyðingsstúlku var nauðgað af 13 ára drengjum. AFP/Alain Jocard

Tveir þrettán ára drengir hafa verið ákærðir í Frakklandi fyrir að nauðga 12 ára stúlku. 

Að sögn stúlkunnar nálguðust hana þrír drengir á aldrinum 12 til 13 ára í almenningsgarði nálægt heimili hennar í hverfinu Courbevoie í París. 

Stúlkan segir drengina hafa dregið hana inn í skúr þar sem þeir börðu hana og nauðguðu á meðan þeir hótuðu henni lífláti og höfðu uppi hatursfull ummæli um gyðinga. 

Nauðgunin tekin upp 

Nauðgunin var tekin upp á síma af einum dreng á meðan annar hótaði henni lífláti ef hún skyldi segja yfirvöldum frá því sem gerðist. 

Mómælendur með skilti vegna nauðgunarinnar.
Mómælendur með skilti vegna nauðgunarinnar. AFP/Jean-Philippe Ksiazek

Vinur stúlkunnar sem var með henni í almenningsgarðinum bar kennsl á tvo árásarmennina en þrír drengir voru handteknir á mánudaginn. Tveir þeirra hafa verið ákærðir fyrir hópnauðgun en sá þriðji var aðeins ákærður fyrir ofbeldi og hatursorðræðu. 

Vakið mikla reiði í Frakklandi

Atburðurinn hefur vakið mikla reiði í Frakklandi og komu þúsundir mótmælendur saman fyrir utan ráðhúsið í París í gær og mótmæltu gyðingahatri. Margir mótmælendur héldu uppi skiltum þar sem vitnað var í stúlkuna sem var nauðgað. 

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur fordæmt atburðinn og sömuleiðis gyðingahatur í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert