Appelsínugulri málningu sprautað á einkaþotur

Aðgerðarsinni úr hópnum Just Stop Oil stillti sér upp fyrir …
Aðgerðarsinni úr hópnum Just Stop Oil stillti sér upp fyrir framan vélina eftir að hafa sprautað á hana appelsínugulri málingu. AFP/Just Stop Oil

Aðgerðarsinnar í loftslagsmálum ruddust í dag inn á Standsted-flugvöll í Bretlandi og sprautuðu appelsínugulri málningu á einkaþotur. 

Um er að ræða aðgerðarsinnahópinn Just Stop Oil en hópurinn vann jafnframt skemmdarverk á hinu eldforna mannvirki Stonehenge í gær þar sem appelsínugulu efni var úðað á tvo jötunsteina. 

Úðuðu málningu úr slökkvitæki 

Hópurinn sagði ástæðu þess að þau létu til skarar skríða þá að bandaríska poppstjarnan Taylor Swift hefði lent á flugvellinum nokkrum klukkustundum fyrr, en Swift hefur verið gagnrýnd af aðgerðarsinnum fyrir notkun sína á einkaþotum. 

Lögreglan í Essex sagði flugvél Swift þó ekki hafa verið á flugvellinum þegar atvikið átti sér stað. Swift er samt sem áður á tónleikaferðalagi í Bretlandi. 

Tvær konur á aldrinum 22 og 28 ára voru handteknar, grunaðar um glæpsamlegt tjón og fyrir að hafa valdið truflun á flugvellinum. 

Konurnar, sem eru giftar, notuðu slökkvitæki með appelsínugulri málningu til að úða á tvær einkaþotur, samkvæmt yfirlýsingu frá Just Stop Oil.

Í yfirlýsingunni var þess jafnframt krafist að næsta ríkisstjórn Bretlands myndi skuldbinda sig til að hætta notkun jarðefnaeldsneytis, í áföngum, fyrir árið 2030, en þingkosningar fara fram í Bretlandi þann 4. júlí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert