Enn saknað á Tenerife: Birti mynd af fjalllendi

Leit stendur enn yfir að Jay Slater.
Leit stendur enn yfir að Jay Slater.

Leit stendur enn yfir að 19 ára gömlum breskum dreng, Jay Slater, sem hefur verið saknað síðan á mánudag á spænsku eyjunni Tenerife. 

Móðir drengsins, Lucy Law, segir í samtali við Sky News að Slater hafi hringt í hana á mánudag og sagst ekki vita hvar hann væri staddur. Þá hafði hann skorið sig á fæti og sagðist vera án drykkjar.

Slater náði að senda móður sinni ljósmynd af staðsetningu sinni, en síminn hans varð rafmagnslaus stuttu síðar. 

Síðast spurðist til Slater í Rural de Teno-þjóðgarðinum á norðvesturhluta Tenerife. Þá hafði hann tjáð vinum sínum að hann ætlaði að ganga þaðan aftur á hótelið, en hann villtist af leið. 

Hefði stoppað viðkomandi

Á ljósmynd sem Slater hafði birt á samfélagsmiðlum, eftir að hans var saknað, sést hann nálægt fjalllendi og einnig sést mynd af húsi sem hann hafði heimsótt.

Móðir Slater gerði sér ferð þangað sem Slater er talinn hafa tekið myndina og spurðist fyrir um hvort fólk hefði séð son hennar, en fáir könnuðust við að hafa séð Slater. 

„Það sem mér finnst undarlegast er að enginn kannast við að hafa séð hann. Hann er ekki vitlaus strákur. Ef hann hefði séð einhvern á ferli hefði hann stoppað viðkomandi og óskað eftir aðstoð,“ sagði Law í samtali við SkyNews. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert