Lést eftir hnífstungu í Ósló

Hluti aðalbrautarstöðvarinnar í Ósló, Oslo S. Átökin áttu sér stað …
Hluti aðalbrautarstöðvarinnar í Ósló, Oslo S. Átökin áttu sér stað handan húshornsins lengst til hægri á myndinni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Sextán ára piltur sem stunginn var með hníf í norsku höfuðborginni Ósló á föstudagskvöldið lést síðdegis í dag af sárum sínum. Jafnaldri hans liggur undir grun um að hafa orðið honum að bana auk þess sem fleiri eru grunaðir um samverknað, allir undir lögaldri.

Aðdragandi atburðarins voru átök tveggja drengjahópa við þá hlið aðalbrautarstöðvarinnar í Ósló er snýr til sjávar og að Munch-listasafninu nýja. Var kylfu brugðið þar í fyrstu en er átökin hörðnuðu dró einhver drengjanna upp hníf og lagði til þess er lést í dag.

Var hann þegar fluttur á sjúkrahús með lífshættulega áverka en jafnaldrinn, sem helst liggur undir grun í málinu, handtekinn og færður á lögreglustöð.

Grunaður um manndráp frá og með í dag

„Málið er alvarlegt frá byrjun en tekur auðvitað á sig mun alvarlegri blæ er lyktirnar verða svo hörmulegar,“ segir Kari Kirkhorn, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Aðalgrunaði í málinu var úrskurðaður í gæsluvarðhald og gefin tilraun til manndráps að sök sem frá og með deginum í dag verður manndráp.

Marijana Lozic, verjandi grunaða, vill ekki tjá sig um málið að svo búnu eða hvernig það horfir við skjólstæðingi hennar. Réttargæslulögmaður drengsins sem lést og aðstandenda hans er Anette Skjerven Arnkværn sem kveður fjölskyldu hins látna í sárum.

Hlotið dóma áður þrátt fyrir aldur

„Dögum saman héldum við í vonina um að hann lifði þá áverka af sem hann hlaut á föstudagskvöldið en því miður er hann nú látinn,“ segir Arnkværn.

Sá, sem grunaður er um manndráp, er til heimilis í Ósló og þekkir lögregla vel til hans af fyrri brotum. Eftir því sem norska dagblaðið VG greinir frá hefur hann, þrátt fyrir ungan aldur, hlotið dóma fyrir ofbeldi og að hafa haft uppi ógnandi tilburði með hníf á lofti.

Að sögn Kirkhorn ákæruvaldsfulltrúa hefur grunaði rætt við lögregluna og greint frá sinni hlið málsins. Hann viðurkennir þó ekki sök. Lögregla mun fara fram á tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð til viðbótar á morgun, en hann var úrskurðaður í eina viku eftir handtöku.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert