Segir nauðsynlegt fyrir Ísrael að fá send skotfæri

Benjamín Netanjahú er tilbúinn að taka á sig persónulegar árásir …
Benjamín Netanjahú er tilbúinn að taka á sig persónulegar árásir að því gefnu að Ísraelar fái áfram vopnasendingar frá Bandaríkjunum. AFP/Shaul Golan

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, segir Ísrael þurfa að fá send skotfæri frá Bandaríkjunum „í stríðinu fyrir tilveru þess“. Ummælum sínum beindi hann beint til Hvíta hússins eftir að hafa fengið á sig gagnrýni þaðan fyrir að kvarta undan vopnasendingum tengdum átökunum milli Ísraels og Palestínu. 

„Ég er reiðubúinn að fá á mig persónulegar árásir að því tilskildu að Ísraelar fái þau skotfæri sem þeir þurfa á að halda, frá Bandaríkjunum, í stríðinu fyrir tilveru sinni,“ sagði Netanjahú í yfirlýsingu. 

Bandaríkin munu halda áfram að veita Ísrael stuðning 

Ummæli ísraelska leiðtogans komu í kjölfar myndbandsyfirlýsingar sem hann sendi frá sér í vikunni þar sem hann sakaði Bandaríkin um að „halda eftir vopnum og skotfærum til Ísraels“.

Bandarískir embættismenn hafa þó sagt opinberlega að þeir viti ekki til hvers Netanjahú hafi verið að vísa. 

„Þessi ummæli eru mikil vonbrigði og vissulega óskemmtileg fyrir okkur, ef litið er til þess stuðnings sem við höfum og munum halda áfram að veita,“ sagði John Kirby, talsmaður þjóðarör­ygg­is­ráðsins við blaðamenn í dag.

Ein sending til skoðunar vegna áhyggna af notkun hennar 

Þá segir í yfirlýsingu frá stjórnvöldum að ein sending, sem inniheldur 2.000 punda sprengjur, sé til skoðunar vegna áhyggna af notkun þeirra á þéttbýlum svæðum á Gasa. 

Kirby tók jafnframt sérstaklega fram að Jake Sullivan, þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Joe Biden Banda­ríkja­for­seta, myndi hitta ísraelska starfsbróður sinn Tzachi Hanegbi og ráðherrann Ron Dermer á fimmtudaginn.

Bandaríkin eru einn helsti bakhjarl ísraelska hersins, en Hvíta húsið hefur þrátt fyrir það lýst gremju sinni vegna hækkandi fjölda látinna borgara á Gasa, þar sem Ísraelar hafa staðið fyrir aðgerðum í meira en átta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert