Telja hinn ákærða líklegan til flótta

Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, var beitt ofbeldi í Kaupmannarhöfn.
Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, var beitt ofbeldi í Kaupmannarhöfn. AFP/Ludovic Marin

Héraðsdómur Kaupmannahafnar hefur ákveðið að framlengja gæsluvarðhald yfir manninum sem ákærður er fyrir árás á Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, vegna þess að líklegt sé að hinn ákærði leggi á flótta verði hann látinn laus.

Danska ríkisútvarpið greinir frá. 

Gæsluvarðhaldið yfir hinum ákærða var í dag framlengt til 4. júlí næstkomandi. 

Hinn ákærði er 39 ára gamall pólskur maður sem er ákærður fyrir ofbeldi gegn einstaklingi í opinberri þjónustu. Maðurinn er sagður hafa slegið forsætisráðherra harkalega á hægri upphandlegg hennar sem hafi orðið til þess að hún missti jafnvægið.  

Man ekki eftir atvikinu vegna ölvunar

Í yfirheyrslu sagði sá ákærði að hann muni ekki vel eftir atvikinu sökum mikillar ölvunar. Þó muni hann eftir því að hafa hitt forsætisráðherrann. 

Við rannsókn málsins kom í ljós að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hinn ákærði kemst í kast við lögin.  Áður hafi hann verið tekinn fyrir kynferðisbrot og búðarþjófnað. 

Saksóknari segir að rannsókn á málinu standi enn yfir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert