Um 2.000 börn deyja daglega vegna loftslagsmengunar

Loftslagsmengun í borginni Kathmandu í Nepal.
Loftslagsmengun í borginni Kathmandu í Nepal. AFP

Nærri 2.000 börn deyja daglega vegna heilsufarsvandamála af völdum loftslagsmengunar. Kemur þetta fram í skýrslu sem gefin var út í dag af heilbrigðiseftirlitinu HEI í Bandaríkjunum.

Í skýrslunni segir að loftslagsmengun hefði átt þátt í 8,1 milljón dauðsfalla árið 2021. Táknar sú tala að loftslagsmengun hefur nú tekið fram úr tóbaksnotkun og slæmu mataræði þegar kemur að völdum snemmbúinna dauðsfalla en aðeins hár blóðþrýstingur er þar ofar á lista. 

Meira en 500.000 dauðsföll tengd óhreinu eldsneyti

Segir í skýrslunni ung börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir loftslagsmengun og létust 700.000 börn undir 5 ára aldri af völdum mengunarinnar. Eru meira en 500.000 þeirra dauðsfalla tengd við eldamennsku innandyra þar sem notast er við óhreint eldsneyti á borð við kol, tré og dýrasaur – þá mestmegnis í Afríku og Asíu.

Kemur þá einnig fram í skýrslunni að næstum hver einasta manneskja á jörðinni andi að sér loftmengun á hverjum degi og að yfir 90% dauðsfalla af völdum loftmengunar árið 2021 séu tengd efni sem kallast PM2,5. Er það örfínt svifryk sem mælist í loftinu og getur valdið hættu á lungnakrabbameini, hjartavandamálum og sykursýki svo eitthvað sé nefnt.

Einnig ber á ósonmengun

Í skýrslunni kom einnig fram að ósonmengun, sem búist er við að muni versna eftir því sem heimurinn hlýnar vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, tengdist næstum 500.000 dauðsföllum árið 2021.

Pavalli Pant, yfirmaður alþjóðaheilbrigðisdeildar heilbrigðiseftirlitsstofnunarinnar, segir að um sé að ræða vandamál sem vitað sé að hægt sé að takast á við. Nefnir hún að mjög svipaðar lausnir séu tækar fyrir loftslagsbreytingar og loftslagsmengun og snúist þær fyrst og fremst um að reyna að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert