Fékk 18 mánaða dóm fyrir að skemma listaverk

Hæstiréttur Danmerkur dæmdi í dag listamanninn Ibi-Pippi Orup Hedegaard í …
Hæstiréttur Danmerkur dæmdi í dag listamanninn Ibi-Pippi Orup Hedegaard í 18 mánaða fangelsi vegna skemmdarverka á listaverki. Ljósmynd/Colourbox

Dómur féll í gær í máli danska listamannsins Ibi-Pippi Orub Hedegaard fyrir Hæstarétti Danmerkur, og var hann dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir gróft skemmdarverk á Asger Jorn-málverkinu „The Disturbing Eagle“.

Þetta kemur fram á síðu danska ríkisfjölmiðilsins

Skemmdir uppá 38 milljóna króna

Hedegaard framdi skemmdarverkið vorið 2022 með því að mála yfir verk Jorn og merkja það nafni sínu: „Ibi-Pippi". Skemmdirnar hafa verið metnar upp á 1,9 milljóna danskra króna, sem samsvarar um 38 milljónum íslenskra króna. 

Málverkið fyrir og eftir skemmdarverkið.
Málverkið fyrir og eftir skemmdarverkið.

Málið fór fyrst fyrir Vestur-Landsrétt, þar sem Hedegaard var dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundna fangelsisvist áður en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.

„Mér finnst þetta frekar harður dómur, en ég virði niðurstöðu efsta dómstigsins,“ sagði Hedegaard í samtali við DR. 

Í andstöðu við svipað dómsmál 

Listamaðurinn telur þó niðurstöðuna í mikilli andstöðu við niðurstöðu svipaðs máls frá árinu 2020, þegar Katrine Dirckinck-Holmfeld, þáverandi deildarstjóri Listaháskólans, var ákærð fyrir gróft skemmdarverk.

Atvikið átti sér stað í októbermánuði, en hún hjálpaði til við að kasta brjóstmynd af Friðriki Danakonungi ofan í Kaupmannahafnarhöfn. 

Málinu lauk með því að ákæran var felld niður, meðal annars því Dirckinck-Holmfeld gerði sátt við Akademíuráðið og greiddi því um 44.350 danskar krónur í bætur. 

Í báðum tilvikum voru skemmdarverkin framin sem listrænn atburður. 

Sýni stéttarskiptingu í heimi listamanna

„Ég get ekki annað en séð að þessi dómur sýni að svona atburðir eru litnir öðrum augum ef þú ert ekki hluti af listarelítunni, og mér finnst mega gagnrýna það,“ segir Hedegaard. 

Í dómsorðum Hæstaréttar í máli Hedegaard segist dómurinn telja það „sérstaklega varhugavert“ að skemmdarverkunum hafi verið beint gegn mikilvægu málverki sem er sýnt á opinberum stað, auk þess sem það er óbætanlegt.  

Dómurinn lagði einnig áherslu á að skemmdarverkin væru vandlega skipulögð og að þeim hafði verið streymt í beinni útsendingu, sem hvort um sig var til þyngingar refsingarinnar. 

Telur skemmdarverkin vera í anda Jorns

Hedegaard segist telja að listrænu skemmdarverkin séu algjörlega í anda Jorns. „Enda sagði Jorn sjálfur að hann teldi að listaverk hefðu aðeins 40 ára lífstíma, síðan þyrfti eitthvað nýtt að gerast.“

„Hann var ákafur kommúnisti og ég held að það hefði ekki verið samkvæmt hans smekk hvernig fólk lítur á listina hans í dag,“ bætir skemmdarvargurinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert