Útgönguspár: Flokkur Le Pen með yfirburði

Flokkur Marine Le Pen er með algjöra yfirburði samkvæmt útgönguspám.
Flokkur Marine Le Pen er með algjöra yfirburði samkvæmt útgönguspám. AFP

Útgönguspár benda til þess að Þjóðfylkingarflokkur Marine Le Pen beri afgerandi sigur úr býtum í fyrri umferð þingkosninga í Frakklandi.

Kjörstaðir voru að loka og Þjóðfylkingin er með 34% í útgönguspám. Þar á eftir kemur bandalag vinstriflokka undir merkjum Nýju Alþýðufylkingarinnar (NFP) sem eru með 28,1% fylgi.

Miðjubandalag Emannuel Macron Frakklandsforseta er með 20,3%. Þar á eftir koma Repúblikanar með 10,2%.

BBC greinir frá. 

Sögulegur sigur

Þjóðfylkingin hefur aldrei áður unnið fyrstu umferð þingkosninga í Frakklandi og því er um sögulegar tölur að ræða, ef útgönguspár ganga eftir. Ef þessar tölur verða raunin þá er flokkurinn kominn í kjörstöðu fyrir seinni umferð næsta sunnudag.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, boðaði til kosninganna í skyndi eftir að flokkur hans beið afhroð í kosningum til Evrópuþings í byrjun júní.

Þing­kosn­ing­arn­ar í Frakklandi fara fram með sér­stöku sniði. Ef eng­inn einn fram­bjóðandi fær meiri­hluta í sínu kjör­dæmi fara þeir fram­bjóðend­ur sem hljóta nægt fylgi áfram í næstu lotu þar sem kosið er á nýj­an leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert