Rannsaka hvort Svíi hafi hlotið dauðadóm

Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur krafist þess að refsingunni verði …
Tobias Billström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur krafist þess að refsingunni verði ekki framfylgt. AFP/Emmi Korhonen/Lehtikuva

Utanríkisráðuneytið í Svíþjóð rannsakar nú hvort sænskur ríkisborgari hafi verið dæmdur til dauða í Írak í júní. Þrír Svíar fengu dauðadóm í Írak í síðasta mánuði, en sá dómur tengist öðru máli.

Sænska ríkisútvarpið greinir frá. 

„Ef upplýsingarnar eru réttar eru þær auðvitað mjög alvarlegar,“ segir í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins til sænska ríkisútvarpsins.

Myrtu leiðtoga glæpasamtaka

Stjórnvöld hafa ekki viljað veita nánari upplýsingar um það hvaða brot viðkomandi var ákærður fyrir. Sendiráð Svía í Írak kemur að rannsókn málsins, en sendiráðið er nú staðsett í Stokkhólmi. Það var flutt frá Bagdad, höfuðborg Írak, í öryggisskyni í fyrra eftir að mótmælendur ruddust inn í það. 

Í skriflega svari ráðuneytisins segir að ef upplýsingarnar reynist réttar muni stjórnvöld bregðast skjótt við svo refsingunni verði ekki fullnægt.

Samkvæmt heimildum sænska ríkisútvarpsins voru þrír sænskir ​​karlmenn dæmdir til dauða í Írak í síðasta mánuði. Þeir voru sakfelldir fyrir morðið á Mustafa „Benzema“ Aljiburi sem var leiðtogi sænsku glæpsamtakanna Foxtrot. Stjórnvöld hafa mótmælt refsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert