Mannshvarf frá 1957 upplýst?

Tveir líffræðingar við rannsóknir á hrygningarstöðvum bleikju í stöðuvatninu Savalen …
Tveir líffræðingar við rannsóknir á hrygningarstöðvum bleikju í stöðuvatninu Savalen í Innlandet hafa hugsanlega svipt hulunni af voveiflegu mannshvarfi sumarið 1957. Ljósmynd/Savalen.no

Frétt um tvo líffræðinga, sem fundu jarðneskar leifar manneskju í regnfrakka og stígvélum á botni Savalen-stöðuvatnsins í Østerdalen í Innlandet-fylkinu norska á þriðjudaginn, fór sem eldur í sinu um þarlenda fjölmiðla í gær.

Meðal þeirra fjölmörgu Norðmanna sem lásu um hinn voveiflega fund fræðikvennanna tveggja, sem voru að rannsaka hrygningarstöðvar bleikju í vatninu, var 84 ára gamall maður, Jarle Tronslien, sem mundi samstundis eftir atviki sumarið 1957 – þótt hann hefði aðeins verið táningur að aldri.

Þetta sumar fyrir 67 árum, einmitt í júlí, drukknuðu hjón á sextugsaldri frá Ósló í Savalen, Asta og Trygve Knutsen. Þau héldu út á vatnið á báti og hugðust renna fyrir fisk en eitthvað varð til þess að maðurinn féll í vatnið og var talið að konan hefði reynt að koma honum til bjargar. Bæði drukknuðu.

Látin kona í gulum jakka

Þegar eftir því var tekið í landi að ekki væri allt með felldu úti á vatninu, sem er rúmlega fimmtán ferkílómetrar að flatarmáli og 62 metra djúpt þar sem það er dýpst, var mannskapur sendur til hjálpar með hraði. Í þeim hópi var Jarle Tronslien frá Alvdal en Savalen liggur á mörkum sveitarfélaganna Alval og Tynset.

Fjölmiðlar greindu frá örlögum hjónanna og mannsins sem aldrei fannst, …
Fjölmiðlar greindu frá örlögum hjónanna og mannsins sem aldrei fannst, Trygve Knutsen, í júlí 1957. Frétt dagblaðsins Arbeidets Rett. Skjáskot/Arbeidets Rett

„Við rerum út og leituðum í tvo tíma þar til við fundum látna konu sem flaut í vatninu. Ég man þetta svo skýrt, ég held að hún hafi verið í gulum jakka,“ segir gamli maðurinn í samtali við norska dagblaðið VG. Hann situr við eldhúsborðið á heimili sínu með vatnsglas og notar göngugrind til að komast um. Skrokkurinn er slitinn en hugurinn skýr.

Það var einmitt í frétt VG frá sumrinu 1957 sem haft var eftir lénsmanninum í Alvdal að frekari leit að eiginmanninum væri þýðingarlaus.

Játuðu sig sigraða

„Þegar ég sá fréttirnar spurði ég sjálfan mig hvort þær hefðu virkilega fundið manninn. Hjónin sem drukknuðu komu strax upp í huga mér, konan í vatninu og jakkinn hennar,“ segir Alvdælingurinn roskni sem man tímana tvenna og koma engin önnur mannshvarfsmál á svæðinu upp í huga hans sem hér gætu átt við.

Sjaldan er ein báran stök. VG greinir frá átta dauðsföllum …
Sjaldan er ein báran stök. VG greinir frá átta dauðsföllum „dauðahelgina“ í júlí 1957. Þrjú börn drukknuðu þá helgina, umrædd hjón hurfu og margir lentu í umferðarslysum. Skjáskot/VG

Tronslien gleymir því aldrei þegar vonin um að finna Trygve Knutsen tók að dvína uns hún varð að engu. „Við urðum bara að játa okkur sigraða,“ segir hann við VG.

Hildegunn Tronsli, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar á svæðinu, segir blaðinu að fleiri hafi vakið máls á því við lögregluna að um manninn horfna frá Ósló gæti verið að ræða. „Við gerum okkur það ljóst en getum lítið aðhafst uns kennslanefndin og Réttarlæknisfræðistofnun hafa lokið sínum athugunum,“ segir Tronsli.

Einhver bið verður því á fregnum af því hvort jarðneskar leifar á botni Savalen, skrýddar stígvélum og regnfrakka, tilheyri Óslóarbúanum Trygve Knutsen sem leitarhópnum auðnaðist ekki að finna sumarið 1957 – fyrir 67 árum.

VG

TV2

opp.no (áður Opdalingen)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert