Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýndi ekki nægilegt gagnsæi þegar hún samþykkti kaupsamninga um bóluefni gegn Covid-19 árið 2020, að mati næstæðsta dómstóls Evrópu.
Dómurinn fellur aðeins degi áður en kosið er um framboð Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, til nýs kjörtímabils. Reuters greina frá.
Sumir þingmenn á Evrópuþingi hafa gagnrýnt hvernig framkvæmdastjórnin afgreiddi kaupsamningana á sínum tíma en samningarnir voru upp á milljarða evra.
Framkvæmdastjórnin er einnig gagnrýnd fyrir að birta ekki SMS-samskipti milli von der Leyen og forstjóra lyfjaframleiðandans Pfizer. Von der Leyen bar fyrir sig að hún hefði ekki geymt skilaboðin.
Framkvæmdastjórnin undirritaði samninga við bóluefnisfyrirtækin AstraZeneca, Sanofi GSK, Johnson & Johnson, BioNTech, Pfizer, Moderna og fleiri þegar faraldurinn stóð sem hæst.
Nokkrir þingmenn á Evrópuþinginu óskuðu eftir aðgangi að skjölunum til að skoða skilmálana. Framkvæmdastjórnin veitti þó aðeins aðgang að hluta þeirra og afskráði sum skjölin, sagði það gert til að vernda viðskiptahagsmuni og ákvarðanatökuferlið.
Þingmennirnir vísuðu því málinu til Almenna dómstólsins (e. European General Court) í Lúxemborg, sem staðfesti í morgun að stjórnin hefði ekki verið nægilega gagnsæ.
„Framkvæmdastjórnin veitti almenningi ekki nægilega víðtækan aðgang að kaupsamningum um bóluefni gegn COVID-19,“ segir í niðurstöðu dómstólsins. „Framkvæmdastjórnin sýndi ekki fram á að víðtækari aðgangur að þessum ákvæðum myndi í raun grafa undan viðskiptahagsmunum þessara fyrirtækja,“ segir enn fremur.
Dómstóllinn hafnaði einnig rökum framkvæmdastjórnar ESB, sem báru fyrir sig friðhelgi einkalífs.
Framkvæmdastjórnin segist ætla að kynna sér ákvörðun dómstólsins og hvaða áhrif þeir hefðu og áskilja sér lagalegan rétt. Hún getur skotið málinu til Evrópudómstólsins, æðsta dómstóls Evrópu.
Framkvæmdastjórnin ætti nú að vera gagnsærri í ákvarðanatöku sinni eftir dóminn, að sögn Kim van Sparrentak lögfræðings sem ásamt samstarfsmönnum sínum lagði fram kæruna fyrir dómstólinn.
„Þessi úrskurður er mikilvægur fyrir framtíðina, þar sem búast má við að framkvæmdastjórnin taki að sér fleiri sameiginleg innkaup á sviðum eins og heilbrigðis- og varnarmálum,“ sagði van Sparrentak enn fremur. „Nýja framkvæmdastjórnin þarf nú að aðlaga meðferð sína á beiðnum um aðgang að gögnum til samræmis við dóminn í dag.“
Á fimmtudag greiðir Evrópuþingið atkvæði um framboð von der Leyen til annars fimm ára kjörtímabils.
Umboðsmaður ESB sakaði framkvæmdastjórnina árið 2022 um misferli í opinberu starfi, vegna þess að hún birti ekki textaskilaboð von der Leyen við Albert Bourla, forstjóra Pfizer. New York Times kærði framkvæmdastjórnina fyrir að birta ekki skilaboðin.