Dagurinn byrjar ekki vel fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta en í dag hafa sjö demókratar á Bandaríkjaþingi stigið fram og beðið Biden um að draga forsetaframboð sitt til baka.
Þar á meðal er öldungadeildarþingmaðurinn Martin Heinrich frá ríkinu Nýju-Mexíkó.
Nú hafa þrír öldungadeildarþingmenn í Demókrataflokknum óskað eftir því að hann dragi framboð sitt til baka og 26 fulltrúadeildarþingmenn.
Samkvæmt samantekt RealClear Politics þá leiðir Trump kannanir á landsvísu með þremur prósentustigum. Í helstu sveifluríkjum, sem ráða venjulega úrslitum kosninganna, þá mælist Trump með 4,3 prósentustiga forskot.
Kosningabarátta Bidens er á ís en hann dvelur nú heima hjá sér í einangrun eftir að hann greindist með Covid-19.
Að sögn Jen O’Malley Dillon, meðstjórnanda í kosningateymi Bidens, er Biden þó „algjörlega“ að fara að halda áfram í framboði.
Staða Bidens er tekin að þrengjast enn meira en fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að nokkrir af hæstsettu demókrötum landsins séu að biðja Biden um að draga framboð sitt til baka.
Meðal þessara demókrata eru sagðir vera Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.
Hafa margir demókratar ekki aðeins áhyggjur af því að Biden tapi Hvíta húsinu, heldur hafa þeir einnig áhyggjur af því að þeir nái ekki meirihlutanum í fulltrúadeildinni og tapi meirihluta sínum í öldungadeildinni.