Joe Biden Bandaríkjaforseti hyggst „algjörlega“ ætla að halda áfram í framboði að sögn Jen O’Malley Dillon, meðstjórnanda í kosningateymi Bidens. Á sama tíma hafa nokkrir demókratar hafið auglýsingaherferð gegn sitjandi forsetanum.
„Joe Biden hefur aldrei áður verið jafn ákveðinn í því að vinna Donald Trump,“ sagði O’Malley Dillon í viðtali við MSNBC í morgun.
Á sama tíma hefur hópur demókrata stofnað pólitíska aðgerðanefnd, á frummálinu Political action committee, sem heitir „Pass the Torch“ og vill að Joe Biden dragi framboð sitt til baka og afhendi öðrum demókrata keflið.
CNN greinir frá.
Er hópurinn að fjármagna sjónvarpsauglýsingar á einni af uppáhalds sjónvarpsstöð Bidens, MSNBC, og kom fyrsta auglýsingin í morgun í auglýsingahléi í þættinum „Morning Joe“.
Biden þekkir vel til þáttastjórnenda þess þáttar og horfir reglulega á hann.
Eru auglýsingarnar aðeins sýndar í Washington-borg og Rehoboth Beach í Delaware-ríki þar sem Joe Biden er reglulega á heimili sínu.
„Biden forseti, þú bjargaðir lýðræðinu árið 2020. Nú hefur þú tækifæri til að gera það aftur. Það er kominn tími á að þú afhendir keflið,“ segir i auglýsingunni.
Í morgun bættist við enn einn demókratinn á Bandaríkjaþingi sem hvetur nú forsetann til að draga framboð sitt til baka.
„Ég er þar með að biðja Biden að rétta næstu kynslóð kyndilinn,“ skrifaði Sean Casten, þingmaður í fulltrúadeildinni, í Chicago Tribune í morgun.
Núna hafa yfir 20 þingmenn demókrata á Bandaríkjaþingi beðið Biden um að draga framboðið til baka.
Staða Bidens er tekin að þrengjast enn meira en fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að nokkrir af háttsettustu demókrötum landsins séu að biðja Biden um að draga framboð sitt til baka.
Meðal þessara demókrata eru sagðir vera Chuck Schumer, leiðtogi öldungadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.