Demókratar með auglýsingaherferð gegn Biden

Biden hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann mætti …
Biden hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann mætti Donald Trump í kappræðum í síðasta mánuði. AFP/Erin Schaff

Joe Biden Bandaríkjaforseti hyggst „algjörlega“ ætla að halda áfram í framboði að sögn Jen O’Malley Dillon, meðstjórnanda í kosningateymi Bidens. Á sama tíma hafa nokkrir demókratar hafið auglýsingaherferð gegn sitjandi forsetanum. 

„Joe Biden hefur aldrei áður verið jafn ákveðinn í því að vinna Donald Trump,“ sagði O’Malley Dillon í viðtali við MSNBC í morgun.

Á sama tíma hefur hópur demókrata stofnað pólitíska aðgerðanefnd, á frummálinu Political action committee, sem heitir „Pass the Torch“ og vill að Joe Biden dragi framboð sitt til baka og afhendi öðrum demókrata keflið.

CNN greinir frá.

Herja á þátt sem Biden horfir á

Er hópurinn að fjármagna sjónvarpsauglýsingar á einni af uppáhalds sjónvarpsstöð Bidens, MSNBC, og kom fyrsta auglýsingin í morgun í auglýsingahléi í þættinum „Morning Joe“.

Biden þekkir vel til þáttastjórnenda þess þáttar og horfir reglulega á hann.

Eru auglýsingarnar aðeins sýndar í Washington-borg og Rehoboth Beach í Delaware-ríki þar sem Joe Biden er reglulega á heimili sínu.

„Biden forseti, þú bjargaðir lýðræðinu árið 2020. Nú hefur þú tækifæri til að gera það aftur. Það er kominn tími á að þú afhendir keflið,“ segir i auglýsingunni.

Enn einn þingmaðurinn stígur fram

Í morgun bættist við enn einn demókratinn á Bandaríkjaþingi sem hvetur nú forsetann til að draga framboð sitt til baka.

„Ég er þar með að biðja Biden að rétta næstu kynslóð kyndilinn,“ skrifaði Sean Casten, þingmaður í fulltrúadeildinni, í Chicago Tribune í morgun.

Núna hafa yfir 20 þingmenn demókrata á Bandaríkjaþingi beðið Biden um að draga framboðið til baka.

Staðan tekin að þrengjast

Staða Bidens er tek­in að þrengj­ast enn meira en fjöl­miðlar vest­an­hafs greina frá því að nokkr­ir af hátt­sett­ustu demó­kröt­um lands­ins séu að biðja Biden um að draga fram­boð sitt til baka.

Meðal þess­ara demó­krata eru sagðir vera Chuck Schumer, leiðtogi öld­unga­deild­ar Banda­ríkjaþings, Nancy Pelosi, fyrr­ver­andi for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings, og Hakeem Jeffries, leiðtogi demó­krata í full­trúa­deild­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert