Engar reglur til að takast á við stöðuna

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segist ekki …
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segist ekki muna eftir öðru eins brotthvarfi frá framboði í seinni tíð. AFP

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir brottfall Bidens frá framboði til forseta merkilegt og að spennandi dagar séu fram undan.

Engar reglur séu til staðar innan Demókrataflokksins til þess að takast á við stöðuna og varaforsetinn, Kamala Harris, þurfi að vera á kjörseðlinum til þess að fjármagn framboðsins glatist ekki.

Í samtali við mbl.is segir hún að þó að um stórfréttir sé að ræða hafi staða hans veikst eftir síðasta „kappræðuklúður“.

„Ég man ekki eftir því að þetta hafi gerst, alla vegana ekki á 20., 21. öld, að frambjóðandi sem sigrað hefur í forvali hafi vikið. Þannig að þetta eru mjög merkilegar fréttir að þetta sé að gerast. Hins vegar þarf Harris að vera á kjörseðlinum til þess að allt fé sem Biden hefur safnað renni ekki út í sandinn. Þetta er í raun og veru það sem kannski þarf að gerast, að hún verði áfram annaðhvort varaforsetaefni eða taki við sem forsetaefni.“

Engir ferlar til innan flokksins

„Það eru engir ferlar til í flokknum til þess að leysa úr þessu máli, þannig að ef flokkurinn vill sameinast og koma sterkur inn í kosningar er þetta sennilega skynsamlegasta lausnin. Frekar en að reyna að fara í einhverjar hraðar forkosningar. Það þarf að vera komin niðurstaða 6. ágúst vegna þess að þá þarf að setja nafn frambjóðanda á kjörseðilinn í Ohio,“ segir Silja.

„Þau þurfa að sameinast um einhvern frambjóðanda og Harris þarf að vera á kjörseðlinum. Annars má ekki nota allt fé sem Biden hefur safnað í framboð einhvers sem ekki er í framboði nú þegar.“

Hversu líklegt telur þú að þau nái að sameinast á bak við Harris?

„Það er hins vegar erfitt að segja til um. Það er ekkert náttúrulega komið fram sem maður getur sagt um eins og stendur.“

Gæti þurft að fá eldri hvítan karl með sér líkt og Obama 

Heldurðu að bandaríska þjóðin sé tilbúin fyrir kvenkyns forseta?

„Eins og staðan er þá er Trump náttúrulega miklu sterkari. Ég held að það sé ekki líklegt að Harris geti sigrað eins og staðan er núna en auðvitað veit maður ekki. Hún gæti kannski staðið meira í Trump, hann hefur ekki haft sama tímann til þess að undirbúa framboð gegn henni. Í sjálfu sér þá er þetta bara spurning um hvort fólk sé að kjósa flokkana og þótt oft hafi verið sagt að bandaríska þjóðin væri ekki tilbúin fyrir konu þegar Clinton var í framboði þá fékk hún engu að síður fleiri atkvæði en Trump á þeim tíma þannig að allt er mögulegt.“

Er einhver sérstakur sem þú telur að sé líklegur til þess að fara í þetta með Harris?

„Það er enginn svona sem mér dettur í hug. Sá sem kannski hefur verið augljósasti kosturinn er ríkisstjórinn í Kaliforníu, Gavin Newsom, en hún er auðvitað líka frá Kaliforníu þannig að það væri held ég ekki skynsamlegt. Það gæti verið að hún þyrfti að gera svipað og Obama gerði á sínum tíma, að velja einhvern svona eldri hvítan karl til þess að setja fram ásýnd valdsins eins og Bandaríkjamenn eru vanir því.

Þetta verða mjög spennandi sólarhringar fram undan,“ segir Silja að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka