Peningarnir fossuðu inn um leið og Biden vék

11,5 milljónir Bandaríkjadala söfnuðust á einni klukkustund í gær.
11,5 milljónir Bandaríkjadala söfnuðust á einni klukkustund í gær. AFP

Peningarnir hrönnuðust inn til Demókrata í gær þegar Joe Biden Bandaríkjaforseti vék úr framboði og Kamala Harris varaforseti gaf kost á sér. Aldrei hafa fleiri fjárframlög til Demókrata safnast í gegnum netið á einum degi.

Stuðningsmenn Demókrata gáfu flokknum í gær yfir 50 milljónir Bandaríkjadala (6,8 milljarða króna) en fjárhæðin byggist á talningu New York Times út frá gögnum á vef ActBlue, stærsta kosningahóps Demókrata.

Á klukkustundunum áður en Biden upplýsti um ákvörðun sína námu fjárframlögin um 200 þúsund dölum á klukkustund að meðaltali. En eftir að hann ákvað að víkja úr framboði námu framlögin tæplega 11,5 milljónum dala á einni klukkustund.

Stuðningsmenn höfðu fryst greiðslur

Þegar klukkan var gengin í tíu að staðartíma í austurhluta Bandaríkjanna í gærkvöldi (kl. 3 að íslenskum tíma) var dagurinn orðinn sá þriðji stærsti í sögu ActBlue.

Upphæðin á við öll fjárframlög sem veitt eru í gegnum vef ActBlue, ekki aðeins framlög til Biden eða Harris.

Aftur á móti greindi New York Times frá því fyrr í júlí að nokkrir fjársterkir stuðningsmenn ætluðu að frysta greiðslur upp á ríflega 90 milljónir Bandaríkjadala, en þá hafði Biden ekki vikið úr framboði.

Síðasta met var árið 2020, eftir að Ruth Bader Ginsburg hæstaréttardómari féll frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka