Ótrúleg atburðarás: 25 dagar frá kappræðum

Síðustu vikur hafa verið viðburðaríkar í stjórnmálunum vestanhafs og munu seint gleymast. Sögulegar kappræður, banatilræði við Donald Trump og svo tilkynnti sitjandi forseti að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum, sem fram fara 5. nóvember næstkomandi.

Á 25 dögum þá fór Joe Biden Bandaríkjaforseti frá því að vera ótvíræður frambjóðandi demókrata og yfir í að draga framboð sitt til baka og lýsa yfir stuðningi við Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna.

Hér verður stiklað á stóru um helstu atburði síðustu vikna. 

Afdrifaríkar kappræður

27. júní mættust Biden og Trump í kappræðum á CNN. Biden þótti standa sig afar illa og þegar um kvöldið hófu demókratar að efast um að Biden hefði getu til að sinna embættinu í fjögur ár í viðbót.

Daginn eftir hélt Biden til Norður-Karólínu og New York. Í kraftmikilli ræðu sinni til stuðningsmanna í Norður-Karólínu viðurkenndi Biden galla sína í kappræðunum.

„Ég veit að ég er ekki ungur maður,” sagði hann meðal annars.

29.-30. júní hélt hann fjáröflunarkvöld þar sem hann reyndi að fullvissa fjársterka aðila um að hann væri með alla burði til þess að sigra Trump í nóvember.

Donald Trump og Joe Biden tókust á í sjónvarpskappræðum á …
Donald Trump og Joe Biden tókust á í sjónvarpskappræðum á CNN. AFP

Fyrsti þingmaðurinn steig fram

2. júlí varð Lloyd Doggett, þingmaður Demó­krataflokksins í full­trúa­deild­inni, fyrsti þingmaður flokks­ins til að kalla eft­ir því op­in­ber­lega að Joe Biden drægi fram­boð sitt til baka.

Daginn eftir fundaði Biden með ríkisstjórum demókrata og sagði við þá að hann þyrfti meiri svefn og að hann myndi hætta að skipuleggja viðburði eftir klukkan 20 á kvöldin.

Sama dag fór Biden í viðtal hjá útvarpsstöð í Pennsylvaníu, en fáeinum dögum síðar kom í ljós að spurningarnar sem útvarpskonan hafði spurt hefðu verið skrifaðar af starfsfólki forsetans.

Reyndi að snúa vörn í sókn

5. júlí mætti Joe Biden í viðtal hjá George Stephanopoulos á ABC News til að lægja öldurnar, en honum varð ekki að ósk sinni. Sagði Biden m.a. í viðtalinu að aðeins Guð almáttugur gæti fengið hann til að endurskoða framboð sitt.

7. júlí fundaði Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, með þingflokki sínum, en nokkrir fulltrúar demókrata tjáðu Jeffires þá skoðun sína að þeir teldu rétt að Biden drægi framboð sitt til baka.

Biden ákvað daginn eftir að snúa vörn í sókn og sendi hann bréf á demókrata á Bandaríkjaþingi þar sem hann hvatti þá til að sameinast gegn Donald Trump.

„Ég er staðráðinn í því að halda áfram bar­átt­unni,“ skrifaði Biden meðal annars í bréfinu.

Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.
Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni. AFP/Getty Images/Tierney L. Cross

Pelosi og Clooney Biden til ama

Biden tók svo á móti þjóðarleiðtogum Atlantshafsbandalagsins 8. júlí og fékk hann vinnufrið í örskamma stund.

Friðurinn varð úti hinn 10. júlí er Nancy Pelosi, fyrrverandi forseti fulltrúadeildarinnar, sagði í viðtali að það væri und­ir Biden komið að taka ákvörðun um það hvort hann vildi halda áfram í fram­boði.

Biden hafði þó ít­rekað sagt á undangengnum dög­um og vik­um að hann ætlaði að halda áfram og því túlkuðu marg­ir um­mæli Pelosi sem beiðni um að Biden sæi sig um hönd.

Sama dag ritaði leikarinn George Clooney aðsenda grein í dagblaðið New York Times þar sem hann skoraði á Biden að draga framboð sitt til baka.

Kynnti Selenskí sem Pútín

11. júlí, á lokadegi leiðtogafund Atlantshafbandalagsins, gerði Biden þau mistök að kynna Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta upp á svið sem „Pútín for­seta“. Biden leiðrétti sig strax, en skaðinn var skeður.

Seinna um kvöldið hélt hann blaðamannafund þar sem hann sagði að Donald Trump væri varaforseti sinn, en að þessu sinni leiðrétti hann sig ekki.

Sama dag bárust fregnir af því að Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Nancy Pelosi væru búin að ræða saman og hefðu verulegar áhyggjur af stöðu framboðsins.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. AFP

Banatilræði við Trump

12. júlí hélt Biden kosningafund í Michigan og kvaðst þar ætla halda ótrauður áfram í framboði. Sama dag fór forsetinn í útvarpsviðtal þar sem hann sagði að hann þyrfti að verða fyrir lest svo að hann myndi hætta í framboði.

13. júlí fundaði Schumer með Biden, þar sem þeir ræddu stöðuna, sá fundur vakti hins vegar enga athygli því að nokkrum tímum eftir fundinn var Donald Trump sýnt banatilræði á kosningafundi sínum í Pennsylvaníu-ríki.

Tilræðið var gert í aðdraganda landsfundar repúblikana, og færðist athyglin því nær alfarið yfir á Trump og landsfundinn næstu daga.

Donald Trump var skotinn í eyrað. Einn stuðningsmaður hans var …
Donald Trump var skotinn í eyrað. Einn stuðningsmaður hans var myrtur og tveir aðrir særðust. AFP/Getty Images/Anna Moneymaker

Stíflan brestur

17. júlí þá steig Adam Schiff, þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, fram og skoraði á forsetann að draga framboð sitt til baka. Seinna um daginn greindist Biden með Covid-19 og hélt hann heim til sín í Delaware í einangrun.

ABC News greindi frá því síðar sama kvöld að Schumer hefði hvatt Biden til að draga framboð sitt til baka á fundinum sem hann átti með Biden daginn sem Trump var skotinn.

18. júlí og næstu daga stigu fleiri demókratar fram og hvöttu Biden til að draga framboð sitt til baka. Þrátt fyrir það sagði kosningastjóri Bidens að hann hefði aldrei verið jafn ákveðinn í því að vinna kosningarnar.

Biden dregur framboð sitt til baka

Án vitundar almennings þá fundaði Joe Biden með nánustu ráðgjöfum laugardaginn 20. júlí og fór yfir stöðuna. Um kvöldið var hann kominn nálægt lokaákvörðun. 

Að morgni 21. júlí steig öldungadeildarþingmaðurinn Joe Manchin fram og hvatti Biden til að draga framboð sitt til baka.

Eftir hádegi sama dag kom færsla frá Biden á Twitter þar sem hann tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri, og lýsti yfir stuðningi sínum við Kamölu Harris varaforseta.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka