Hunter Biden, sonur Joe Bidens Bandaríkjaforseta, játaði sig sekan um skattalagabrot þegar hann kom fyrir dóm í Los Angeles fyrr í dag.
Hunter Biden, sem er 54 ára gamall, játaði sekt í níu ákæruliðum tengdum því að hafa ekki greitt 1,4 milljónir bandaríkjadala í skatt síðasta áratuginn en það jafngildir rúmlega 190 milljónum íslenskra króna.
Saksóknari í málinu hefur haldið fram að Biden hafi í staðinn eytt peningunum í hluti á borð við vændi og eiturlyf.
Málið hefur þótt afar pínlegt fyrir föður Bidens en lengi vel var reynt að semja í málinu og aðeins nokkrum klukkutímum áður en Biden játaði sekt sína hafði hann boðist til að gera það gegn því að samningur myndi nást.
En enginn samningur náðist og játaði Biden brot sín fyrir opnum rétti þrátt fyrir að dómarinn hafi varað við því að það gæti haft í för með sér langan fangelsisdóm og sekt allt að einni milljón bandaríkjadala sem jafngilda um 140 milljónum íslenskra króna. Refsing í málinu verður ákveðin 16. desember.
Ekki er langt síðan að Biden var dæmdur fyrir brot á lögum um skotvopnaeign en sömuleiðis á eftir að kveða upp refsingu í því máli.