„Illskan er til“

Norski glæpasagnakóngurinn Jørn Lier Horst stóð á krossgötum þegar árekstrarnir …
Norski glæpasagnakóngurinn Jørn Lier Horst stóð á krossgötum þegar árekstrarnir milli rannsóknarlögreglumannsstarfs og skáldskapar voru farnir að verða áskorun. Hann sagði Morgunblaðinu frá því og mun fleiru. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég átti góð uppvaxtarár á heimili þar sem aðhaldssemi var í hávegum höfð, mamma vann heima og pabbi var bifvélavirki á strætisvagnaverkstæðinu í bænum,“ segir Jørn Lier Horst sem skammlaust má setja í flokk þeirra sem munda stílvopn sitt í yfirþungavigtarflokki norskra glæpasagnahöfunda – og skandinavískra ef víðar væri leitað.

Við sitjum á glæsilegu heimili rannsóknarlögreglumannsins fyrrverandi í Larvik í hinu smáa norska fylki Vestfold með útsýn yfir hafflötinn milli Larvik og Stavern. Blaðamaður og ljósmyndari eru gestkomendur frá Porsgrunn í nágrannafylkinu Telemark og njóta beinleika rithöfundarins sem ber gestum sínum ilmandi kaffi og bakkelsi eftir að hafa boðið til sætis í garðskála við sundlaugina.

Horst bíður blaðamanns og ljósmyndara á heimili sínu í Larvik, …
Horst bíður blaðamanns og ljósmyndara á heimili sínu í Larvik, gestrisinn og alþýðlegur í alla staði. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

Horst sest í öndvegi andspænis gestum sínum, krossleggur handleggi og lítur ábúðarfullum augum yfir borðið. Hið fræga „jæja“ með líkamstjáningunni einni. Hann er fæddur í Bamble í Telemark árið 1970 en Bamble liggur innan hins forna Grenland sem er sögulegt svæði í Telemark – rétt eins og Raumaríki norðan Óslóar og  Ryfylki í Rogland.

Lesefnið aldrei sparað

„Nú, við hljótum að hafa sést á djamminu þá í gamla daga,“ segir Horst við ljósmyndarann sem er árinu yngri en hann og einnig frá Telemark. Eins og algengt er meðal þeirra sem síðar gera það að lifibrauði sínu að skrifa fyrir ótilgreindan hóp lesenda ólst Horst upp á bókaheimili. Einnig var lesið fyrir hann áður en hann varð stautfær svo segja má að höfundurinn – sem nú er lesinn á yfir 40 tungumálum í meira en tíu milljónum seldra eintaka – hafi notið hinna bestu hráefna staðgóðrar máltilfinningar.

„Það var sparað á heimilinu en það sem aldrei var sparað var lesefni og það var það sem mótaði mig. Ég var nú ekki farinn að lesa glæpasögur sem barn,“ segir hann og brosir í kampinn. „Áður en ég gat lesið sjálfur voru Andrésarblöðin og Mikki Mús lesin fyrir mig,“ segir Horst sem fljótlega varð alæta á lesefni og fljótlega opnaðist honum önnur vídd í þeim efnum.

„Pabbi kom stundum með dagblöð heim sem farþegarnir höfðu skilið eftir í vögnunum. Þau voru kannski tveggja til þriggja daga gömul en það skipti ekki öllu. Eitt af því sem alltaf situr í mér var forsíðufrétt um sex ára gamla stúlku sem hvarf sporlaust, Mariönnu Rugaas Knudsen, þetta var í blöðunum dag eftir dag og þetta mál var fyrsta glæpamálið sem ég fylgdist með,“ segir einn farsælasti glæpasagnahöfundur Noregs og grá augun líta stundarkorn yfir bláan hafflötinn úti fyrir heimili hans.

Ráðgátan um stúlkuna ungu, sem fékk peninga hjá foreldrum sínum 28. ágúst árið 1981 til að spássera tvö hundruð metra og kaupa sér ís og sælgæti hjá kaupmanninum í Frydendal Varehandel, er óleyst enn þann dag í dag. Marianne litla kom í búðina, keypti það sem hún ætlaði sér og lagði peningana samviskusamlega á borðið. Síðan hefur ekkert til hennar spurst.

Hið sérstaka tvöfalda líf

Horst kom að gerð heimildarþáttaraðar um hvarf Marianne og er fróður um mál hennar eins og fjölda norskra afbrotamála, enda rannsóknarlögreglumaður til margra ára og álitsgjafi norskra fjölmiðla á þeim vettvangi, þar á meðal hjá þáttastjórnandanum Jens Christian Nørve sem haldið hefur úti glæparannsóknarþættinum Åsted Norge á TV2 um árabil.

Hvernig stendur á þessum ódrepandi áhuga okkar á mannshvarfsmálum – málaflokki sem alltaf virðist heilla Norðurlandabúa með dulmögnun sinni?

„Það er eitthvað sem heillar okkur við það sem liggur rétt undir yfirborðinu án þess að við samt getum komið auga á það,“ svarar Horst, „lausnin er einhvern veginn í sjónmáli en samt ekki. Í manndrápsmálum finnurðu alltaf svör, en þegar einhver hverfur bara hefurðu ekkert í höndunum. Það er eitthvað við það sem skýtur okkur skelk í bringu en samtímis heillar okkur,“ halda rannsóknarlögreglumaðurinn og glæpasagnahöfundurinn áfram, tvær persónur í einum og sama líkamanum, og hitta kannski báðir bara naglann beint á höfuðið. Alla vega skeikar ekki miklu.

„Nú, við hljótum að hafa sést á djamminu þá í …
„Nú, við hljótum að hafa sést á djamminu þá í gamla daga,“ segir Horst við Sjøstrøm ljósmyndara, Þelamerkurbarn í allar ættir, en þau eru nánast jafnaldrar, skeikar ári. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Við víkjum talinu að hinu sérstaka tvöfalda lífi sem Horst lifði um árabil. Hann lauk lögreglunámi árið 1995 og hóf störf hjá nú horfnu lögregluembætti lénsmannsins í Larvik sem þá hét. Eitt af fyrstu verkefnum Horsts í nýju starfi var voveiflegt manndrápsmál í Rødberg, miðja vegu milli Larvik og Stavern og ekki langt frá vettvangi þessa viðtals.

Ronald Ramm, 71 árs gamall eftirlaunaþegi, fannst látinn á heimili sínu 8. desember 1995 þegar dóttir hans og tengdasonur komu þangað að vitja hans. Gamli maðurinn hafði verið bundinn við stól og laminn í hel auk þess sem rannsókn málsins leiddi í ljós að hann hafði verið misnotaður kynferðislega.

Ný mynd af gömlu máli

Ekkert fémætt hafði horfið af heimilinu og hafði Ramm eftir öllum sólarmerkjum að dæma opnað fyrir einhverjum, en hann var af óþekktum ástæðum var um sig, hafði fengið sér öryggiskerfi á heimili sitt og útvegað sér haglabyssu. Eðli málsins samkvæmt vakti það mikinn óhug en enginn fannst sakamaðurinn eða -mennirnir.

Árið 2010 var rannsókn málsins felld niður er hvorki rak né gekk en hefur nú verið endurvakin í kjölfar þess er kona nokkur hafði samband við Horst á þessu ári en hann hafði þá rætt málið ítarlega í Åsted Norge fyrir tveimur árum og augljóslega ýft upp gömul sár. Ný og óvænt mynd tók að skapast af máli sem upphaflega snerist um gamlan mann sem hafði verið myrtur á hrottafenginn hátt á heimili sínu. Nýja myndin var af gömlum manni sem hafði leigt til sín ungar konur sem húshjálp og nauðgað þeim. „Ég er ekki sú eina,“ sagði konan sem hringdi og fékk blaðamaður að heyra upptöku af símtalinu hjá Horst.

Þú lýkur lögregluháskólanámi árið 1995 og skrifar tæpum áratug síðar þína fyrstu bók sem byggð er á einu af þínum fyrstu málum í lögreglunni. Hvernig fóru þessi tvö hlutverk saman á meðan þú varst enn starfandi lögreglumaður?

„Ég hóf störf í lögreglunni hér í Vestfold árið 1995 og eitt af fyrstu verkefnunum sem mér voru fólgin var að standa vörð um vettvanginn í Ramm-málinu,“ svarar Horst, „og það var mjög sérstök upplifun, þarna hafði maður verið myrtur og ég gekk þarna um við fótspor óþekkts drápsmanns á glæpavettvangi þar sem barátta upp á líf og dauða hafði átt sér stað. Það var svo níu árum seinna sem ég tók að skrifa glæpsögur og sú fyrsta var byggð á þessu,“ heldur hann áfram og ljóstrar því næst upp um atvik sem varð hvatinn að þeim ferli sem síðar átti eftir að taka yfir líf hans og teygja sig til lesenda í 40 löndum.

„Alltaf einhver sem veit eitthvað“

„Það var þannig að ég var sjálfur að lesa skáldsögu eftir norskan höfund sem mér þótti óheyrilega léleg, svo léleg að ég kastaði bókinni gramur frá mér að lestri loknum. Ég var svo að ræða bókina við konu mína um kvöldið og sagði þá að ég hefði auðveldlega getað gert betur sjálfur og hún svaraði um hæl að þá skyldi ég bara gera það. Ég tók mér hálftíma í umhugsunarfrest, fór svo upp og byrjaði að skrifa glæpasögu sem fjallaði um níu ára gamalt óleyst manndrápsmál,“ segir höfundurinn sem nú hefur sent frá sér tugi bóka, þar af fjölda barnabóka.

Það sem öðrum þræði vakti fyrir Horst með ritun Lykilvitnisins, Nøkkelvitnet, bókinni sem byggði á þessari eldskírn hans innan raða norskrar löggæslu, var að hreyfa við aðilum sem kynnu að luma á upplýsingum um málið og fá þá til að stíga fram með ný gögn sem varpað gætu ljósi á þessa óleystu ráðgátu. „Það er alltaf einhver sem veit eitthvað,“ segir glæpasagnahöfundurinn sem var rannsóknarlögreglumaður til margra ára og orðum hans fylgir festa og sannfæring þess sem þekkir betur til norskrar afbrotaveraldar en margur.

„Síðan þetta gerðist hef ég komið á fjölda glæpavettvanga og lögreglustarfið hefur auðvitað mótað líf mitt þar sem ég hef verið í kringum atburði og aðstæður sem valda sorg og harmi,“ segir Horst með þeim yfirvegaða raddblæ sem einkennir allt hans fas. „Maður umgengst fórnarlömb og aðstandendur þeirra auk gerendanna sem allt hefur lagst á eitt við að ljá bókunum mínum yfirbragð sannra sakamála,“ heldur hann áfram og má sannarlega til sanns vegar færa enda eru fjórar glæpasagnanna úr smiðju hans byggðar á sönnum óleystum málum eða svokölluðum „cold cases“ upp á ensku.

„Ég sat þannig við fleiri en eina hlið borðsins og …
„Ég sat þannig við fleiri en eina hlið borðsins og þarna var einfaldlega komið að því að ég stóð frammi fyrir valkostum,“ segir Horst af ferlinum. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

Aðspurður játar Horst að hið tvöfalda líf rannsóknarlögreglumanns og glæpasagnahöfundar hafi ekki verið árekstralaust en hér ber að geta þess að Horst lét af lögreglustörfum árið 2013, sama ár og hann hlaut hin annáluðu glæpasagnaverðlaun Glerlykilinn.

„Set mig í ólíkar stellingar“

„Sem stjórnandi rannsóknar var ég opinber persóna og glæpasagnaskrifin vöktu athygli á mér langt út fyrir það. Þar með lenti ég eðlilega í þeim aðstæðum að umgangast aðstandendur fórnarlamba í manndrápsmálum og svo skrifaði ég skáldsögur byggðar á þessum sömu málum. Ég sat þannig við fleiri en eina hlið borðsins og þarna var einfaldlega komið að því að ég stóð frammi fyrir valkostum,“ segir höfundur bóka sem selst hafa í yfir tíu milljónum eintaka og gerir hlé á máli sínu til að leyfa þyngd þessara krossgatna á ferli hans að síga inn.

„Ég hef oft verið spurður þess hvort ég sakni ekki lögreglustarfsins og það geri ég. En ég á mér enga leið til baka eins og staðan er orðin,“ segir Horst og játar spurningu sem blaðamaður skýtur inn um hvort jafnvel hafi falist viss léttir í því að hverfa úr hlutverki rannsakandans þegar annar stór hluti lífsins snerist um skáldsagnaritun af þeim vettvangi.

Eftir þig liggja tugir barnabóka þótt glæpasagnahöfundurinn sé mun þekktara hlutverk tilveru þinnar. Í hverju felst munurinn einkum á að skrifa fyrir þessa tvo hópa, börn og fullorðna?

„Í raun er það svo að þessir hópar eiga fleira sameiginlegt en það sem greinir þá að,“ svarar sjóaður höfundur án minnsta hiks enda marga fjöruna sopið á hinum síbreytilega vígvelli skáldsagnagerðar, „en engu að síður er það nú þannig að ég set mig í ólíkar stellingar fyrir hvorn um sig. Barnabækur núna ganga mikið út á vampírur, aðrar víddir og uppskáldaða staðleysuheima. Ég kýs að skrifa þannig sagnaumhverfi fyrir börn að þau hugsi sig um og sjái svo að þarna séu settar upp aðstæður sem þau gætu auðveldlega lent í frekar en að það sé skrímsli undir rúminu þeirra,“ segir Horst enn fremur og bætir þeirri athugasemd við í léttum dúr að auðvitað sé mun auðveldara að skrifa fyrir börn – bækurnar séu jú styttri.

„En auðvitað er fleira sem þarna skilur að,“ heldur Horst áfram og verður hugsi á svip. Í barnabókum sé eðlilega ekki reynt að leiða lesandann á villigötur og gera aðrar persónur tortryggilegar á sannfærandi hátt þar til í ljós kemur á efsta degi að morðinginn er hefðarfrúin sem drekkur kamillute og má ekki vamm sitt vita. Frægur varð endir skáldsögu sakamáladrottningarinnar bresku, Agöthu Christie, Morðið á Roger Ackroyd, þegar drápsmaður Ackroyds þessa var afhjúpaður og reyndist sá sem líklega ekki alla lesendur hafði grunað – sögumaðurinn.

Verðlaun – viðurkenning og staðfesting

„Í barnabókum getur maður heldur ekki skrifað neitt á milli línanna eða teymt lesandann á refilstigu. Svo er það líka þannig að í barnabókum eru börn og unglingar aðalpersónur sögunnar. Þá þarftu ekki að byggja upp sama hvatann á bak við gjörðir þeirra og í bókum fyrir fullorðna. Börn og unglingar hugsa sig ekki um tvisvar áður en þau klifra yfir girðingu og klöngrast ofan í námu sem er að hruni komin. Þá þarftu að hugsa upp eitthvað annað til að útskýra hvernig aðalsöguhetjan er komin í einhverjar aðstæður.

Nú hefur fjöldi verðlauna fallið þér í skaut á ferli þínum. Er sú viðurkenning sem í bókmenntaverðlaunum felst hverjum höfundi mikilvæg, er hún mikill drifkraftur í þeirri þaulsætni sem farsæll höfundur á að baki í vinnu sinni?

„Þetta er auðvitað viðurkenning og staðfesting á því að það sem þú ert að gera veki athygli annarra,“ svarar glæpasagnahöfundur sem á tuttugu ára ferli sínum hefur hampað Glerlyklinum, Riverton-verðlaununum, Petrona-verðlaununum, Nordic Noir-verðlaununum fyrir spennusögu ársins og þar með er verðlaunalistinn ekki einu sinni hálftæmdur.

Hvað er þetta með karlmenn og hönd undir kinn þegar …
Hvað er þetta með karlmenn og hönd undir kinn þegar þeir vilja virðast spekingslegir? Er þetta ekki bara bévítans ósiður? Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

„Verðlaun eru viss gæðastimpill og það er virkilega ánægjulegt að hljóta þau, í því felst viðurkenning á þínu starfi samtímis því sem höfundurinn vekur athygli erlendis, má þar nefna Nordic Noir-verðlaunin. Slík verðlaun eru meðal annars ástæðan fyrir því að bækur mínar hafa í dag komið út í rúmlega 40 löndum,“ bætir Horst við þýðingu bókmenntaverðlauna í grein hinna skrifandi og lýkur máli sínu með því að verðlaun fyrir bækur séu í raun ekki ósvipuð því þegar kvikmynda- eða þáttagerðarmenn sækjast eftir því að festa höfundarverk á filmu.

Af hverju er maðurinn svona venjulegur?

Þar með er komið að því sem blaðamaður lítur á sem hreina þungavigtarspurningu í viðtalinu þótt hann skarti svo sem engri meistaragráðu í Jørn Lier Horst. Höfuðpersóna hans á vettvangi glæpaskrifanna er óumdeilanlega rannsóknarlögreglumaðurinn William Wisting í Larvik en aðdáunarvert er hve mörgum skáldsögum Horst hefur með besta árangri getað valið sögusvið í Larvik og Stavern í Vestfold-fylki, stöðum sem augu heimsins hvíla langt í frá á og eru svo „venjulegir“ sem mest má vera.

Eða hvað? Ekki er lengra síðan en í janúar að í Stavern kom upp voveiflegt mál hjóna sem fundust látin með nokkurra mánaða millibili. Geta ekki ótrúlegustu aðstæður komið upp alls staðar?

Blaðamaður spyr Horst hvernig á því standi að sköpunarverk hans utan um aðalpersónuna sé svo gjörsamlega látlaust sem raun ber vitni. Wisting er eins dæmigerður Norðmaður og þeir gerast, í skáldskapnum lætur Horst hann þó vera afkomanda pólfarans Oscars Wistings sem er í raun það eina sem sker Wisting úr í sáravenjulegu vísitölulífi skandinavísks laganna varðar.

Engir lestir þyngja Wisting, eru ekki allar alvöruhetjur í bókmenntum andhetjur? Lögreglupersóna Jo Nesbø er fyllibytta og Jan-Erik Fjell teflir fram hinum bráðsnjalla og kaldhæðna Anton Brekke sem glímir við þráláta spilafíkn. Wisting vaknar snemma á morgnana, lifir mjög heilbrigðu lífi en dregur þann djöful sem andlát eiginkonu hans var langt fyrir aldur fram. Hann sér ekki sólina fyrir dóttur sinni blaðamanninum og hegðar sér eins og maður í vinnunni. Hvernig stendur á þessu?

Nú skellihlær Horst og hlátur rithöfundarins er smitandi. Hann er þessi draumaviðmælandi hvers blaðamanns, með öll svör á hraðbergi auk þess sem yfir honum hvílir ró þess manns sem fundið hefur sína fjöl í lífinu og er sáttur við guð og menn. En getur hann svarað spurningunni um ofurvenjulegu söguhetjuna?

Heimili glæpasagnahöfundarins í Larvik er óneitanlega í vægum Hollywood-stíl.
Heimili glæpasagnahöfundarins í Larvik er óneitanlega í vægum Hollywood-stíl. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Já, Wisting segirðu. Það var nú þannig að þegar ég tók til við að skrifa fyrstu bókina mína varð ég einnig að tefla fram nýrri norskri glæpasagnahetju,“ hefur Horst málsvörn Williams Wistings. „Þegar ég stóð frammi fyrir því að skapa Wisting fyrir 20 árum hafði ég lesið alveg nóg um lögreglumenn sem þvældust um einir síns liðs og leystu manndrápsmál á fylleríi,“ segir hann og glottir við tönn enda er hér freistandi að draga þá ályktun að sneiðin beinist beint að Harry Hole, hinni drykkfelldu aðalpersónu Jo Nesbø.

Wisting er allt sem Wallander var ekki

„Ég vildi skapa lögreglumann í anda þeirra lögreglumanna sem ég þekkti og starfaði með og þar sprettur William Wisting fram. Ég hef lesið bækur [sænska glæpasagnahöfundarins heitins] Hennings Mankells mikið og þekki hans aðalpersónu, Kurt Wallander, vel og maður óskar þess einhvern veginn að Wallander eigi sér betra líf, sé heilbrigðari, vel kvæntur og svo framvegis,“ heldur norski höfundurinn áfram um látinn sænskan starfsbróður og hans mann í lögreglunni.

Þannig hafi hann tálgað Wisting út til að vera í raun allt sem Wallander var ekki. „Það sem er sérstakt við Wisting er að það er ekkert sérstakt við hann og margir lesendur eiga í raun auðvelt með að finna sig í honum. Bókmenntirnar eru fullar af andhetjum þar sem eru sögupersónur sem eiga sér sitt einkalíf og sín vandamál og þetta verður eins konar hjálparmótor fyrir framvindu sögunnar, vekur forvitni lesandans á að vita meira og sjá hvernig úr rætist hjá persónunni. Notirðu ekki slíkan hjálparmótor þyngjast kröfurnar um söguþráð og umgjörð sögunnar,“ segir Horst.

Nøkkelvitnet var byggð á sönnu máli og ég hef bara skrifað þá einu bók sem fjallar um mál sem raunverulega fyrirfinnst,“ heldur rithöfundurinn áfram þótt fleiri bækur sínar hafi hann byggt að einhverju leyti á sönnum norskum sakamálum. „Annars snúast bækurnar mínar venjulega um einhvers konar þema,“ útskýrir hann og nefnir fjórar skáldsögur sem snúast um kólnuð sakamál, hin frægu „cold case“-málsem svo kallast.

Ein þeirra, Katharina-koden, er byggð á máli Kristinar Juel Johannessen, tólf ára gamallar stúlku sem var myrt í Larvik árið 1999. „Ég notaði næstum þrjú ár í starfi mínu til að finna hinn ábyrga í því máli. Þar hlaut maður dóm í héraði en var sýknaður eftir áfrýjun málsins vegna vafa um DNA-sönnunargögn.

Tækninni fleygði svo fram og fimmtán árum síðar var hægt að greina leifar af húð morðingjans undir nöglum stúlkunnar sem geymdar höfðu verið í frysti öll þessi ár. Í það skiptið voru öll tvímæli tekin af, hinn seki var maðurinn sem við höfðum tekið fimmtán árum áður,“ rifjar glæpasagnahöfundurinn upp en drápsmaðurinn situr enn í fangelsi þegar þetta er skrifað fyrir að svipta stúlkuna lífi sínu.

Hörgull á fleiri lýsingum á rigningu

Hann kveður bókina ekki fjalla um stúlkuna, fórnarlambið, hún fjalli fyrst og fremst um manninn sem myrti hana. „Hann sleppur og lifir lífi sínu áfram eins og saklaus maður, telur sig hafa komist upp með manndráp, bókin fjallar um þá hlið málsins, hvernig líf slíkrar manneskju sé,“ segir Horst.

Hvað er það sem skilur norrænar glæpasögur frá öðrum glæpasögum heimsins, fyrir utan að alltaf er rigning, myrkur og leiðindaveður í þeim? Þær skera sig úr með einhverjum hætti.

Horst skellir upp úr yfir veðurathugasemdinni. „Þetta snýst einmitt mikið um veðrið, við erum með heilmikið veður á Norðurlöndunum og það skapar alveg sérstaka stemmningu,“ játar hann. „Í bókinni sem ég hlaut Glerlykilinn fyrir rignir frá fyrstu blaðsíðu [þetta var Jakthundene, Veiðihundarnir, sem kom út 2012]. Þegar ég var hálfnaður að skrifa bókina átti ég orðið í stökustu vandræðum með að finna fleiri lýsingar á rigningu,“ segir Horst og hlær.

Horst er einn af þungavigtarmönnunum í skandinavískum glæpasagnaheimi, ákaflega viðkunnanlegur …
Horst er einn af þungavigtarmönnunum í skandinavískum glæpasagnaheimi, ákaflega viðkunnanlegur og höfðingi heim að sækja. Ljósmynd/Anita Sjøstrøm

Hann segir marga hafa reynt að útskýra sérstöðu norrænna glæpasagna. „Því hefur verið velt upp að það sé mjög sérstakt að höfundar sem búa í friðsamlegasta hluta heimsins geti skrifað svona vel um voveiflega hluti. Einhverjir segja að hér sé svo friðsamlegt og rólegt að við verðum að brydda upp á einhverju og ég hef svo sem ekkert betri skýringu en það á reiðum höndum,“ viðurkennir Horst.

Samskrif gömul norræn hefð

Hann hefur skrifað bækur með öðrum höfundum. Nýlega er bókin Skriket komin út sem Horst skrifar með Jan-Erik Fjell, rúmlega fertugum glæpasagnahöfundi í Fredrikstad sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir sína höfuðpersónu, lögreglumanninn Anton Brekke sem áður er nefndur hér.

Áður hefur Horst skrifað bækur með Thomasi Enger þar sem rannsóknarlögreglumaðurinn Alexander Blix og fréttabloggarinn Emma Ramm hafa farið mikinn og notið vinsælda meðal norskra lesenda. Hvernig skyldi ganga að skrifa skáldsögur með öðrum höfundi?

„Á bak við það er í raun gömul norræn hefð,“ svarar Horst og bendir á sænska höfundaparið Maj Sjöwall og Per Wahlöö sem saman skrifuðu tíu ódauðlegar glæpasögur, en þau eru nú bæði látin, hann árið 1975 og hún 2020.

„En þetta krefst skipulagningar, er kannski dálítið eins og boðhlaup, við skrifum texta og sendum hvor öðrum. Við Thomas [Enger] höfum til dæmis þekkst í mörg ár, sama forlagið gaf bækurnar okkar út lengi vel og við hittumst á glæpasagnamessum úti um allan heim. Töluðum þá gjarnan um bækur sem við höfðum lesið upp á síðkastið og ræddum hvað virkaði og hvað virkaði ekki,“ segir Horst af upphafi samstarfs þeirra Engers.

Samskrif þeirra hafi mikið til byggst á símtölum og tölvupóstsamskiptum auk þess sem hvor las yfir texta hins. Annað hefði líkast til varla gengið.

Þekkirðu marga aðra glæpasagnahöfunda, hefur stéttin samskipti?

„Já já, heldur betur, ég á til dæmis fjóra íslenska vini úr þeim hópi,“ svarar Horst og nefnir Yrsu Sigurðardóttur, sem hann kveðst nýlega hafa kynnst, en þeir Arnaldur Indriðason hafi hins vegar þekkst um þó nokkra hríð.

Svo hef ég hitt Ragnar [Jónasson] á bókamessum nokkrum sinnum,“ segir norski höfundurinn frá og getur þess síðast en ekki síst að einnig hafi hann nýverið kynnst Lilju Sigurðardóttur en svo vill til að nú í vikunni voru þau Horst einmitt bæði tilnefnd til Petrona-verðlaunanna sem veitt eru fyrir bestu norrænu glæpasöguna í enskri þýðingu.

Einhver verður drepinn

Hann bætir því við að von sé á íslenskri þýðingu tveggja bóka hans og nefnir sérstaklega hina nýútkomnu þýðingu bókarinnar Illvilje sem hlotið hefur íslenska titilinn Grimmlyndi. „Ég er viss um að fólkið mitt hjá Uglu á Íslandi gleðst ef þú birtir mynd af bókinni með netútgáfunni af viðtalinu,“ segir Horst og blaðamaður verður að sjálfsögðu góðfúslega við því.

Grimmlyndi er nýkomin út á íslensku og Horst sendir starfsfólki …
Grimmlyndi er nýkomin út á íslensku og Horst sendir starfsfólki Uglu kveðju. Ljósmynd/Aðsend

Grimmlyndi fjallar um einmitt það sem titillinn gefur til kynna, viljann til að meiða og skaða aðra. „Ég hef hitt fólk sem hefur framið ljóta verknaði, en þau eru ekki nema örfá tilfellin þar sem ég hef staðið andspænis fólki sem hefur til að bera einbeittan vilja til að vera illt,“ segir Horst sem sjálfur hefur rannsakað innstu vé illskunnar af vandvirkni og kostgæfni.

Meðal bóka sem hann hefur lesið um eðli illskunnar er The Lucifer Effect: How Good People Turn Evil eftir sálfræðinginn Philip Zimbardos sem rannsakað hefur efnið um áraraðir.

Mest áhrif hafi þó bók hins norska Jons Gangdals, Noen kommer til å bli drept, Einhver verður drepinn, haft á Horst en hún fjallar um hið voveiflega Søgne-mál sem snerist um fjórtán ára pilt sem myrti jafnöldru sína og vinkonu á hrottafenginn og úthugsaðan hátt.

„Árið 2015 heimsótti ég skólann sem þau bæði gengu í. Fór þangað sem rithöfundur. Þegar mér var boðið þangað á ný ári síðar hafði stúlkan verið myrt og foreldrar hennar sögðu mér sögu af drápsmanni sem fólk óttaðist en var of ungur til að hljóta refsingu. Frásögn þeirra varð mér dapurleg staðfesting á því að illskan er til,“ segir norski glæpasagnahöfundurinn Jørn Lier Horst að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert