Trump óhultur: Byssuhvellir í nágrenni við hann

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Byssuhvellir heyrðust í nágrenni við forsetaframbjóðandann Donald Trump fyrir skömmu en hann er heill á húfi.

Aðstoðarfólk hans greindi frá þessu.

„Trump er óhultur eftir byssuskot í nágrenni við hann. Getum ekki sagt meira að svo stöddu,“ sagði talsmaður kosningaherferðar hans, Steven Cheung, í yfirlýsingu.

Forsetinn fyrrverandi var að spila golf í Palm Beach á Flórída þegar atvikið átti sér stað. Golfvellinum var umsvifalaust lokað, að sögn heimildarmanns CNN.

Trump var sýnt banatilræði á kosningafundi í Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum um miðjan júlí. Hann slapp með skrekkinn þegar byssukúla strauk hægra eyra hans. 

Leyniþjónustan rannsakar atvikið

Bandaríska leyniþjónustan greindi frá því á X að hún væri að vinna með lögreglunni í Palm Beach við rannsókn atviks sem tengdist Trump. Leyniþjónustan sagði atvikið hafa gerst skömmu fyrir klukkan 14 að staðartíma, eða fyrir rúmri klukkustund.

Óljóst hver hleypti af 

Trump hafði verið í golfi skammt frá húsi sínu í Mar-a-Lago en hann var í fríi í dag frá kosningaherferð sinni, að sögn bandarískra fjölmiðla.

Óljóst er hver hleypti byssukotunum af og enn hefur ekkert komið fram um að Trump hafi verið skotmarkið.

Einhverjar fregnir hafa borist um að byssuskotin tengdust deilu tveggja einstaklinga skammt frá golfvellinum.

Bandaríska leyniþjónustan, sem ber m.a. að vernda forseta landsins og fyrrverandi forseta, var harðlega gagnrýnd eftir banatilræðið í Pennsylvaníu í sumar. Forstjóri stofnunarinnar sagði síðar af sér og að minnsta kosti fimm starfsmenn voru sendir í leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert