„Ég er nauðgari“

Teikning af Pelicot við réttarhöldin.
Teikning af Pelicot við réttarhöldin. AFP/Benoit Peyrucq

„Ég er nauðgari,“ sagði franskur karlmaður sem ákærður er fyrir að hafa byrlað eiginkonu sinni slævandi lyf svo hann gæti nauðgað henni og jafnframt boðið tugum karlmanna heim til þeirra í sama tilgangi, við réttarhöldin yfir honum sem vakið hafa mikinn óhug í Frakklandi.

Dominique Pelicot, sem er 71 árs, hefur játað glæpinn og tjáði sig í fyrsta skipti um ásakanirnar í dómssal í dag en réttarhöldin fara fram í borginni Avignon. Fyrrverandi eiginkona hans, sem hann braut á, var viðstödd.

„Ég er nauðgari eins og aðrir í þessu herbergi,“ sagði Pelicot og vísaði þar til um 50 sakborninga í málinu. Allt menn sem hann fann á netinu og fékk til að nauðga þáverandi konu sinni, Gisele Pelicot.

„Þeir vissu allir að ég væri að bjóða þeim til að nauðga henni,“ sagði hann jafnframt. „Hún átti þetta ekki skilið,“ bætti hann svo við.

Gisele Pelicot gerði sjálf kröfu um að réttarhöldin yrðu opin.
Gisele Pelicot gerði sjálf kröfu um að réttarhöldin yrðu opin. AFP/Christophe Simon

Talaði um nauðgun og erfiða æsku

Pelicot er gefið að sök að hafa gefið fyrrverandi konunni sinni ítrekað slævandi lyf á árunum 2011 til 2020 og nauðgað henni meðvitundarlausri, ásamt því að hafa fengið allt upp í 72 karlmenn á aldrinum 26 til 74 ára til að nauðga henni líka. Aðeins var þó hægt að bera kennsl á og hafa upp á um 50 þeirra.

Við réttarhöldin talaði Pelicot um erfiða æsku sína og sagði foreldra sína hafa misnotað hvort annað. Þá hafi honum verið nauðgað í tvígang, fyrst þegar hann var níu ára og svo þegar hann var iðnnemi á byggingarsvæði.

Honum vöknaði um augu þegar hann sagðist hafa borið þessa erfiðu reynslu alla ævi. „Þú fæðist ekki svona, þú verður svona,“ sagði hann.

AFP/Christophe Simon

Vildi sjálf að réttarhöldin yrðu opin

Gisele Pelicot hélt ró sinni allan tímann á meðan fyrrverandi eignmaður hennar talaði. Þegar hún sjálf kom í vitnastúkuna sagðist hún aldrei hafa efast um eiginmann sinn.

Hann bað hana svo um að fyrirgefa sér. „Ég er sekur. Ég bið konuna mína, börnin og barnabörnin að meðtaka þessa afsökunarbeiðni. Ég bið þau að fyrirgefa mér,“ sagði hann. Bað hann jafnframt eiginkonur hinna sakborninganna afsökunar.

Nokkrir hinna 50 sakborninganna hafa viðurkennt að hafa vitað að Pelicot hefði gefið konu sinni slævandi lyf en aðrir segjast hafa talið sig vera að taka þátt í „makaskiptafantasíu“.

Gisele Pelicot gerði sjálf kröfu um að réttarhöldin yrðu opin almenningi til að vekja athygli á þessari tegund glæpa. Málið hefur vakið mikinn óhug í Frakklandi og hafa þúsundir Frakka hópast saman á götum úti til stuðnings Gisele. Margir bera skilti með orðunum „Skilum skömminni þangað sem hún á heima,“ en þau eru höfð eftir Gisele sjálfri sem ítrekað hefur sagt að það sé nauðgarinn sem eigi að skammast sín, ekki fórnarlambið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka