Rapparinn neitar sök

Tón­list­armaður­inn Sean Combs, einnig þekkt­ur sem P. Diddy.
Tón­list­armaður­inn Sean Combs, einnig þekkt­ur sem P. Diddy. AFP/Angela Weiss

Tón­list­armaður­inn Sean Combs, einnig þekkt­ur sem Diddy, kveðst saklaus af ákærum um fjárkúgun og kynlífsþrælkun.

Hann var hand­tek­inn í New York í gær­kvöldi en ákæran á hendur honum var gefin út fyrr í dag. Er hann sakaður að hafa tekið þátt að beita konur kynferðisofbeldi í áraraðir.

Combs sem er 54 ára kom fyrir dómara í fyrsta skipti í dag en þar sagðist hann saklaus og fór fram á að fá að ganga laus gegn tryggingu.

Var ekki í sínu fínasta pússi

Dómarinn neitaði þeirri beiðni með þeim rökum að „valdaójafnvægi“ væri milli Combs og meintra fórnalamba hans. Hann mun því að óbreyttu dvelja áfram í varðhaldi fram að réttarhöldum.

Combs, sem mætti nokkuð hversdagslega klæddur í dómsal, brást ekki sérstaklega við þegar dómarinn kvað upp ákvörðun sína en lögfræðingur Combs, Marc Agnifilo, hefur gefið út að hann muni áfrýja henni.

Auk þess að vera ákærður fyrir fjárkúgun og kynlífsþrælkun er Combs sömuleiðis sakaður um að hafa flutt eina manneskju yfir ríkjamörk í Bandaríkjunum til þess að taka þátt í vændi.

Rak glæpaveldi

Saksóknarinn Damian Willams hefur þá gefið út að þrátt fyrir að Combs sé sá eini sem hafi verið handtekinn vegna málsins standi rannsókn enn yfir.

Í kærunni á hendur Combs segir að hann hafi „misnotað, hótað og kúgað konur og aðra í kringum sig til að uppfylla kynferðislegar langanir sínar, verja orðspor sitt og hylma yfir framgöngu sína“.

Þá er hann sakaður um að hafa rekið „glæpaveldi“ sem stóð meðal annars að mannráni, íkveikjum, nauðungarvinnu og mútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert