Rússnesk hjón í blóðugum illdeilum

Deilur auðugustu konu Rússlands og eiginmanns hennar um eignarhlut í …
Deilur auðugustu konu Rússlands og eiginmanns hennar um eignarhlut í fyrirtæki enduðu með skotbardaga í gær. AFP/Kirill Kudryavtsev

Eiginmaður auðugustu konu Rússlands, Tatyönu Bakalchuk, var handtekinn í dag vegna gruns um nokkur afbrot, þar á meðal manndráp, í kjölfar þess er tveir öryggisverðir voru skotnir til bana í húsnæði fyrirtækis konunnar, netverslunarinnar Wildberries, í gær.

Þau hjónin eru skilin að borði og sæng og sló í brýnu þegar eiginmaðurinn, Vladislav Bakalchuk, kom í hópi kumpána sinna til að komast að samkomulagi um ágreiningsmál þeirra með því sem áttu að vera friðsamlegar samningaviðræður.

Heldur eiginkonan því fram að maður hennar hafi brotist inn í húsnæði Wildberries með vopnuðu föruneyti sem hóf þegar skothríð. Hafi þeir ætlað sér að taka fyrirtækið yfir með valdbeitingu sinni.

Við ramman reip að draga

Var Vladislav Bakalchuk tekinn höndum og verður í haldi lögreglu í tvo sólarhringa til að byrja með. Hefur ákæruvaldið þegar gefið út ákæru á hendur honum þar sem honum er gefið að sök manndráp, tilraun til manndráps, árás á löggæslumann og ólögmæt sjálftaka.

Birti eiginkonan myndskeið af sér grátandi á samfélagsmiðlum í gær þar sem hún brigslaði manni sínum um að hafa skipulagt ódæðið.

Tatyana og Vladislav Bakalchuk stofnuðu Wildberries árið 2004 en þegar þau skildu að skiptum risu deilur um hvað hann skyldi bera úr býtum frá rekstri þeirra. Var þar við ramman reip að draga þar sem eignarhlutur hans var eitt prósent en hennar 99 prósent.

Fallið í hendur glæpamanna

Wildberries varð fyrir stórtapi við að sameinast auglýsingafyrirtækinu Russ á sínum tíma en stjórnvöld þurftu að leggja blessun sína yfir samrunann. Þau gerðu það en meðeigandinn og eiginmaðurinn setti sig upp á móti honum og bar því við fjölskyldufyrirtækið væri fallið í hendur glæpamanna.

Kalla lögmenn hans ákæruna fáránlega í ljósi þess að öryggisverðir eiginkonunnar hafi orðið fyrstir til að grípa til vopna í heimsókninni örlagaríku í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert