5.300 milljarða lán til Úkraínu

Ursula von der Leyen og Volodimír Selenskí heilsuðust með virktum …
Ursula von der Leyen og Volodimír Selenskí heilsuðust með virktum við upphaf blaðamannafundar í Kænugarði í dag. AFP

Evrópusambandið hyggst veita Úkraínu 35 milljarða evra lán, sem samsvarar um 5.300 milljörðum króna. Hluti fjárins á rætur að rekja til rússneskra eigna sem ESB hefur látið frysta.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greindi frá þessu í dag.

„Við erum þess fullviss að við getum veitt Úkraínu þetta lán fljótlega. Lánveitingin tengist hagnaði sem kemur frá rússneskum eignum sem hafa verið fyrstar,“ sagði hún enn fremur.

Von der Leyen greindi frá þessu á fundi í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, með Volodimír Selenskí, forseta landsins.

Úkraínumanna að ákveða hvað verði gert við lánið

„Þetta mun veita ykkur verulegt og nauðsynlegt fjárhagslegt andrými. Það er ykkar að ákveða hvernig fjármunirnir verða best nýttir,“ sagði hún við Selenskí.

Úkraínsk stjórnvöld hafa þurft nauðsynlega á fjármagni að halda til að efla hagkerfi landsins og halda raforkukerfinu gangandi í vetur í kjölfar linnulausra sprengjuárása rússneskra hersveita.

Meirihluti aðildarríkja ESB þarf að kvitta undir lánveitinguna. Hún er hluti af stærri aðgerðapakka sem G7-ríkin samþykktu í júní, sem tengist því að nota hluta rússneskra eigna og fjármuna sem hafa verið frystir. Sú lánveiting nemur 50 milljörðum dollara, eða sem jafngildir 6.800 milljörðum kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert