Bjóða innflytjendum milljónir til að fara úr landinu

Johan Forssell, innflytjendaráðherra Svíþjóðar, sagði að með hækkuninni þá geti …
Johan Forssell, innflytjendaráðherra Svíþjóðar, sagði að með hækkuninni þá geti fleiri innflytjendur valið að yfirgefa Svíþjóð. Ljósmynd/Flickr

Sænsk stjórnvöld hyggjast greiða innflytjendum 350 þúsund sænskar krónur, eða rúmlega 4,7 milljónir króna, gegn því að þeir fari sjálfviljugir úr landi.

Aftonbladet greinir frá.

Ríkisstjórnin kveðst gera þetta til að gefa innflytjendum sem hafa ekki aðlagast sænsku samfélagi sterkan fjárhagslegan hvata til að yfirgefa landið.

Tekur gildi árið 2026

Nú fyrir er innflytjendum boðnar tíu þúsund sænskar krónur, eða um 135.000 krónur, en fáir innflytjendur hafa látið sér það duga til að yfirgefa landið.

Með hækkuninni, sem tekur gildi árið 2026, er það von stjórnvalda að fleiri innflytjendur nýti sér þennan möguleika.

„Við teljum að það sé fólk sem býr í Svíþjóð sem líður eins og að lífið hafi kannski ekki orðið eins og það vildi og þá teljum við að með þessari hækkun, sem hefur virkað vel í Danmörku, geti fleiri valið að snúa aftur,“ sagði Johan Forssell, ráðherra innflytjendamála, á blaðamannafundi.

Segir innflytjendur íþyngjandi fyrir velferðakerfið

Talsmaður innflytjendastefnu Svíþjóðardemókrata var spurður af Aftonbldaet hvort að fyrir væri ekki fólk í Svíþjóð sem hefði gott af því að fá fjárhæðina án þess að flytja úr landi.

„Það er mikilvægt að muna að þetta eru opinber útgjöld sem munu skila sér í miklum sparnaði. Í Svíþjóð þurfum við að hætta að íþyngja velferðarkerfinu með fjölmörgu fólki sem getur ekki staðið á eigin fótum en býr í Svíþjóð ár eftir ár,“ svaraði Ludvig Aspling, talsmaður innflytjendastefnu Svíþjóðardemókrata.

Gæti haft letjandi áhrif á aðlögun innflytjenda

Starfshópur var settur á fót til að meta áhrifin af þessu og hefur hann skilað niðurstöðu. 

Hópurinn mat það sem svo að þessi aðgerð myndi hafa letjandi áhrif á aðlögun innflytjenda í Svíþjóð þar sem hún gæti haft þau áhrif að innflytjendum liði eins og þeir væru ekki velkomnir í sænskt samfélag.

Þá sagði hópurinn að fáir innflytjendur myndu nýta sér þetta úrræði árlega.

Meiri áhætta fólgin í aðgerðarleysi

Innflytjendaráðherrann, Johan Forssell, sagði að það væri hins vegar ómögulegt að vita fyrir fram hversu margir myndu nýta sér þetta úrræði.

Vissulega væri áhætta sem fylgdi þessu úrræði, en aðgerðarleysi byði líka upp á meiriháttar áhættu fyrir Svía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert