„Ég hefði örugglega ekki átt að segja þetta“

Kamala Harris og Oprah Winfrey spjölluðu saman í gær á …
Kamala Harris og Oprah Winfrey spjölluðu saman í gær á fundi, sem bar yfirskriftina Unite for America, sem fram fór í Farmington Hills í Michigan. Viðtalið var sýnt í beinu streymi á netinu. AFP

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaefni demókrata, kveðst óhrædd að beita skotvopni mæti hún innbrotsþjófi á heimili sínu.

„Ef einhver brýst inn á mitt heimili, þá verður sá hinn sami skotinn,“ sagði Harris í léttum dúr þegar hún sat með bandaríska spjallþáttastjórnandanum Opruh Winfrey í gær. Um var að ræða viðburð sem fór fram í Michigan og var streymt í beint á netinu.

Eftir að hafa hlegið um stund bætti Harris við: „Ég hefði örugglega ekki átt að segja þetta, en starfslið mitt mun taka á þessu síðar.“

Harris hefur lýst því yfir að hún eigi skotvopn. Hún tók þó fram í viðtalinu við Winfrey að hún styðji það að banna eigi sölu á hríðskotavopnum.

Hún sagði við Winfrey að slík vopn hefðu „bókstaflega verið hönnuð sem stríðstóll“. „Þau eiga ekki heima á götum borgarlegs samfélags,“ sagði Harris jafnframt.

Andstæðingar hennar hafa ítrekað bent á það fyrir komandi forsetakosningar, að viðhorf Harris gagnvart skotvopnum sé dæmi um það hvernig hún eigi það til að skipta um pólitíska afstöðu, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert