Margrét Þórhildur á sjúkrahúsi

Margrét Þórhildur Danadrottning liggur á sjúkrahúsi þar sem ástand hennar …
Margrét Þórhildur Danadrottning liggur á sjúkrahúsi þar sem ástand hennar er kannað eftir að hún hrasaði og féll á mánudaginn. AFP

Margrét Þórhildur Danadrottning liggur á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn eftir að hún hrasaði og datt í Friðriksborgarhöllinni á miðvikudaginn. Var hún ekki flutt rakleiðis á sjúkrahúsið, það var ekki fyrr en í gær og þá til að framkvæma læknisskoðun á drottningu til öryggis en hún er nú á 85. aldursári.

Friðrik Danakonungur ræddi óhapp móður sinnar við fjölmiðla í gær þar sem hann heimsótti Drengjakór Kaupmannahafnar á hundrað ára afmæli kórsins.

„Ég hef ekki átt þess kost að heimsækja hana enn sem komið er, en ég hef rætt við hana og hún hefur það gott. Ég veit að hún er í góðum höndum á Ríkissjúkrahúsinu,“ sagði konungur.

Gekkst undir stóra aðgerð

Margrét Þórhildur sinnir enn konunglegum verkum og ber drottningartitilinn þótt hún hafi afsalað sér krúnunni í janúar til Friðriks. Í dag hefði hún samkvæmt dagskrá átt að vera í heimsókn í Árósaháskóla þar sem 75 ára afmæli fornleifafræðideildar skólans er fagnað. Neyddist drottning til að aflýsa heimsókninni.

Thomas Larsen, sérfræðingur í dönsku konungsfjölskyldunni, segir að virkni drottningar sýni svo ekki verði um villst að hún sé í góðu formi og geti sinnt konunglegum skyldum, en Margrét Þórhildur gekkst undir stóra aðgerð á baki í fyrra og taldi í janúar rétt að tími sonarins í embætti væri kominn.

„Við höfum séð það oft að drottningin hefur snúið til baka eftir endurhæfingartímabil og hefur verið til í slaginn, „fit for fight“ eins og Larsen orðaði það við danska ríkisútvarpið í gær.

DR

Jyllands-Posten

Ekstrabladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert