Auka gæslu á Októberfest í kjölfar árása

Frá upphafi hátíðarhalda fyrr í dag.
Frá upphafi hátíðarhalda fyrr í dag. AFP/Kirill Kudryavtsev

Stærsta bjórhátíð í heimi, Októberfest í Munchen í Þýskalandi, hófst rétt í þessu. Öryggisgæslan á hátíðinni er meiri í ár en áður hefur verið vegna árása jihadista í landinu undanfarið.

„Við munum gera Októberfest eins öruggt og mögulegt er,“ lofaði borgarstjóri Munchen, Dieter Reiter, í ræðu áður en hátíðin var formlega sett í 189. skipti.

Hátíðin stendur yfir til 6. október en í fyrra sóttu hana meira en sjö milljón gestir sem drukku í sameiningu um 6,5 milljón lítra af bjór.

Rannsakað sem hryðjuverk

Auknar öryggisráðstafanir hátíðarinnar í ár er vegna nokkurra árása öfgamanna í Þýskalandi undanfarið, þar á meðal hnífstunguárásar í síðasta mánuði þar sem þrír létust og átta særðust.

Þýsk lögregluyfirvöld handtóku í kjölfarið sýrlenskan mann sem á að hafa heitið hollustu við íslamska ríkið.

Þá skaut lögreglan í Munchen mann til bana fyrr í þessum mánuði en sá hafði hafið skotárás við ræðisskrifstofu Ísraels í borginni. Málið er rannsakað sem hryðjuverkaárás.

Vantar ekki öryggisverði

Yfirmaður lögreglunnar í Munchen, Christian Huber, hughreysti gesti á leið á Októberfest fyrr í vikunni og sagði að hátíðin yrði „sú öruggasta í Þýskalandi, ef ekki í öllum heiminum“.

Þó að hættustig sé hærra en áður er ekkert sem bendir til að hátíðin í Munchen sé skotmark árásamanna, sagði Huber.

Auk 600 lögreglumanna hafa borgaryfirvöld ráðið 1.500 öryggisverði til að sinna gæslu á svæðinu.

Málmleitartækjum hefur verið komið fyrir við hátíðarsvæðið í fyrsta skipti sem og öryggismyndavélum.

Þá mun lögreglan fylgjast með hvort kannabis verði neytt á svæðinu því að þrátt fyrir að efnið hafi verið lögleitt í Þýskalandi fyrr á árinu hafa yfirvöld í fylkinu Bavaríu, þar sem Munchen er staðsett, reynt að takmarka notkun þess eins mikið og mögulega er hægt, meðal annars með því að banna það á útihátíðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert