Tæknirisar sameinast gegn glæpum á Norðurlöndum

Guðrún Hafsteinsdóttir, Peter Hummelgaard og Gunnar Strömmer ræddu um málið …
Guðrún Hafsteinsdóttir, Peter Hummelgaard og Gunnar Strömmer ræddu um málið á ráðstefnu. Samsett mynd

Tæknirisarnir, Google, Meta, Snapchat og TikTok hafa gefið það út að von sé á aðgerðum til að sporna við því að miðlarnir séu nýttir til glæpa á Norðurlöndunum.

Svo segir Peter Hummelgard, dómsmálaráðherra Danmörku, í lok ráðstefnu þar sem saman voru komnir dómsmálaráðherrar Norðurlandanna í Uppsala í Svíþjóð á föstudag.

Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segir að boltinn sé í höndum tæknifyrirtækjanna sem hafa lofað að koma með lausnir á málinu.

Sérstaklega hafa öpp fyrirtækjanna verið nýtt af glæpagengjum til þess að fá til liðs við sig ungt fólk til glæpaiðkunar.

Strömmer segir vissulega ánægjulegt að tæknifyrirtækin hafi tekið vel í umleitanir Norðurlandanna en sagði við sama tilefni að hann ætti eftir að sannfærast um að gripið verði til raunverulegra aðgerða til að sporna við þróuninni.

Dæmi eru um að glæpagengi fari á milli landa til þess að fremja glæpi. Meðal annars hafa sænsk glæpagengi farið til Danmerkur til skotárása.

Þá lét Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, hafa það eftir sér að dæmi væri um að sænskir hópar kæmu til Íslands að fremja glæpi. 

Hummelgart segir gengin notast við dulkóðuð skilaboð til að koma á framfæri skilaboðum eða jafnvel tilboðum til einstaklinga. Þannig eru dæmi um að fólk viti fyrirfram hvaða upphæð sé í boði fyrir tiltekin verk og svo sé í raun hver sem er sem geti framkvæmt þau.

Sögð hafa samþykkt að deila upplýsingum 

„Eins og ég horfi á hlutina þá er þolinmæði stjórnmálanna búin gagnvart þessu. Ekki bara á Norðurlöndunum heldur um alla Vestur-Evrópu,“ segir Hummelgaard.

Að sögn hans hafa tæknirisarnir meðal annars samþykkt að vinna saman að málinu og jafnvel deila upplýsingum hver með öðrum sem þykir tíðindum sæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert