Á þriðja hundrað látið lífið

Reykur rís upp frá Bekaa-dalnum í Líbanon.
Reykur rís upp frá Bekaa-dalnum í Líbanon. AFP

Alls hafa 274, þar á meðal 21 barn, látist í loftárásum Ísraelshers á Líbanon að sögn heilbrigðisráðherra landsins. Er þetta mannskæðasta árás frá því að stríð braust út á Gasasvæðinu þann 7. október.

Ísrael hefur tjáð sig um verknaðinn og sagst hafa ráðist á um 800 svæði sem tengjast Hisbollah-samtökunum í Suður- og Austur-Líbanon í dag. Þá var einnig gerð markviss árás á höfuðborg landsins, Beirút.

Talið er að árásin hafi beinst að háttsettum manni innan Hisbollah-samtakanna.

Hisbollah-samtökin segjast jafnframt hafa ráðist á fimm svæði í Ísrael. Segjast samtökin hafa skotið eldflaugum á herstöðvar í ísraelsku borginni Haifa.

Vara við frekari árásum

Ríkismiðlar í Líbanon hafa greint frá því að seinni bylgja árása sé hafin í austurhluta landsins.

Að sögn heilbrigðisráðherra Líbanon, Firass Abiad, hafa nú um 5.000 manns særst þar í landi síðan á þriðjudag vegna árása Ísraels.

Talsmaður ísraelska hersins, Daniel Hagari, hefur varað við frekari árásum og sagt að fólk í Líbanon ætti að forðast hugsanleg svæði sem tengjast Hisbollah-samtökunum.

Hafa margir íbúar landsins þurft að flýja heimili sín vegna árásanna og hefur ísraelski herinn hvatt fólk sem býr í Bekaa-dalnum í austurhluta Líbanon til að flýja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert