Þrjú fórnarlömb á þrítugsaldri

Bandarískur lögreglumaður að störfum.
Bandarískur lögreglumaður að störfum. AFP/Stephanie Keith

Þrjú af þeim fjórum sem voru skotin til bana í borginni Birmingham í bandaríska ríkinu Alabama í fyrrakvöld eru á þrítugsaldri. 17 til viðbótar særðust.

Árásin var gerð í hverfinu Five Points South þar sem næturlíf er mikið. Hún varð þegar fólk stóð í biðröð eftir því að komast inn á stað þar sem reyktar eru vatnspípur og vindlar, að sögn bandarískra fjölmiðla.

Scott Thurmond, lögreglustjóri í Birmingham, sagði árásina ekki virðast hafa verið handahófskennda heldur beinst að ákveðnum einstaklingum.

Stigu út úr bíl og hófu skothríð

Nokkrir árásarmenn eru sagðir hafa stigið út úr bíl og hafið skothríð á hóp fólks áður en þeir flúðu af vettvangi. Um 100 byssuhylki fundust á staðnum, að sögn BBC

Borin hafa verið kennsl á þrjú fórnarlömb af þeim fjórum sem voru skotin til bana. Þau voru öll heimafólk og hétu Anitra Holloman, 21. árs, Tahj Booker, 27 ára, og Carlos McCain, 27 ára.  Þau voru öll úrskurðuð látin á staðnum. Fjórða manneskjan lést á sjúkrahúsi.

Talið er að manneskjan sem átti að drepa hafi verið ein af þessum fjórum, að sögn Thurmond.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert