Unglingur stunginn til bana í Lundúnum

Drengurinn lést af sárum sínum skömmu eftir að lögreglan fann …
Drengurinn lést af sárum sínum skömmu eftir að lögreglan fann hann. AFP/Henry Nicholls

Unglingsdrengur lést af sárum sínum eftir stunguárás í Suðaustur-Lundúnum í gær, en lögreglumenn sem fóru í útkall vegna óláta í íbúðagötu í Woolwich síðdegis í gær fundu drenginn særðan. Hann lést skömmu síðar. AFP-fréttstofan greinir frá.

Lögregla hefur varist frekari frétta af árásinni, en vaxandi áhyggjur eru af vopnaburði ungs fólks og fjölgun hnífaárása. 

Árásin átti sér stað aðeins tveimur dögum áður en bann við eign svokallaðra „zombie“-hnífa tekur gildi, en frá og með morgundeginum verður ólöglegt að eiga slíka hnífa. Um er að ræða hnífa sem eru með skörðóttu blaði sem er 20 cm eða lengra og oft notaðir af glæpagengjum.

Bann við eign „zombie“-hnífa tekur gildi á morgun og þá …
Bann við eign „zombie“-hnífa tekur gildi á morgun og þá þarf að skila slíkum vopnum inn til lögreglu. AFP/Henry Nicholls

Hnífamálum fjölgar á milli ára

Rúmlega 50 þúsund mál þar sem hnífar komu við sögu voru skráð hjá lögreglunni á Englandi og Wales á 12 mánaða tímabili, frá því í mars í fyrra og fram í mars á þessu ári, og fjölgaði málunum um fjögur prósent á milli ára. Á sama tímabili voru hnífar eða önnur beitt áhöld notuð í 43 prósent allra morðmála á tímabilinu. Var það tveggja prósenta fjölgun á milli ára.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, hrinti fyrr í þessum mánuði af stað átaki til að sporna við hnífaburði ungs fólks, en hnífaárásum þar sem ungt fólk á í hlut, hefur fjölgað verulega og talaði forsætisráðherrann um þjóðarkrísu.

Allir sem eiga „zombie“-hnífa eða aðra sambærilega hnífa verða að skila þeim inn til lögreglu á morgun þegar bannið tekur gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert