Einn lést umfangsmiklum árásum Rússa

Björgunarmenn að störfum í húsarústum hótels eftir loftárás Rússa á …
Björgunarmenn að störfum í húsarústum hótels eftir loftárás Rússa á Sapóritsjía í byrjun mánaðarins. AFP

Einn lést og sex særðust, þar á meðal tvö börn, í umfangsmiklum loftárásum Rússa á borgina Sapóritsjía í suðurhluta Úkraínu í gærkvöldi. 

„Einn maður lést og sex til viðbótar særðust, þar á meðal 13 ára stúlka og 15 ára drengur, vegna árása Rússa á Sapóritsjía,“ sagði héraðsstjóri Sapóritsjía, Ivan Fedorov, á Telegram.

Eldur kviknaði í innviðum og íbúðabyggingum, bætti hann við.

Almannavarnir í landinu sögðu árásirnar hafa verið „umfangsmiklar“. 

Embættismaðurinn Regina Kharchenko skrifaði á Telegram að 74 íbúðabyggingar og 24 einbýlishús hefðu skemmst víðsvegar um borgina.

Úkraínski flugherinn sagðist í nótt hafa skotið niður 66 árásardróna en 13 til viðbótar hefðu ekki náðst. Fram kom að Rússar hefðu skotið á loft samtals 81 dróna þar sem skotmörkin voru í norður- og í miðhluta Úkraínu. Rússar skutu einnig fjórum flugskeytum, að sögn flughersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert