„Enginn mun deyja á minni vakt“

Stockton Rush stofnandi OceanGate var ekki áhyggjufullur yfir öryggi kafbátsins …
Stockton Rush stofnandi OceanGate var ekki áhyggjufullur yfir öryggi kafbátsins þrátt fyrir ítrekaðarar viðvaranir. Samsett mynd/AFP

„Ég hef enga löngun til að deyja [...] ég held að þetta verði eitt af því öruggasta sem ég mun gera.“

Þetta voru orð Stockton Rush, stofnanda fyrirtækisins OceanGate sem stóð fyrir leiðangri kafbátsins Titan sem fórst í júní á síðasta ári við köfun að Titanic-flakinu.

Samkvæmt BBC lét Rush orðin falla árið 2018 á lykilfundi um áætlaðan köfunarleiðangur Titan.

„Allt í góðu hér“

Bandaríska landhelgisgæslan rannsakar nú atvikið og hefur hlýtt á vitnisburði fólks sem kom að kafbátnum og leiðangrinum með einhverjum hætti.

Landhelgisgæslan birti nýtt myndefni af Titan á botni Atlantshafsins en til þessa hafði einungis brak úr kafbátnum fundist.

Greindu rannsakendur Landhelgisgæslunnar sömuleiðis frá því að hinstu skilaboð úr kafbátnum, áður en hann missti samband við stjórnstöðina, hafi verið „allt í góðu hér“.

Hluti rannsóknargagnanna er fundarrit af fundi Rush með David Lochridge, fyrrverandi stjórnanda hjá OceanGate.

Margsinnis varaður við

Lochridge bar vitni í málinu á föstudaginn en hann birti skýrslu árið 2018 um að þörf væri á frekari prófunum á bátnum. Fram kom að farþegar gætu verið í hættu þegar báturinn næði miklu dýpi, en flak Titanic er á 3.800 metra dýpi í Atlantshafi.

Fyrirtækið rak Lochridge í kjölfar skýrslunnar á fyrrnefndum fundi og stefndi honum fyrir að hafa brotið þagnarskyldu. Lochridge lagði fram gagnkröfu og hélt því fram að honum hefði verið ranglega sagt upp störfum fyrir að velta upp spurningum um öryggi verkefnisins.

Má lesa af fundarskrá að heitar umræður hafi skapast á milli Rush og Lochridge, en sá síðarnefndi hafði ítrekað viðrað áhyggjur sínar af öryggi kafbátsins.

Segir í fundarritinu að Rush hafi svarað Lochridge að honum hugnaðist ekki að deyja og að hann hefði fulla trú á öryggi Titan.

Honum hefði margsinnis verið tjáð að leiðangurinn væri hættulegur en hann væri ekki tilbúinn til að samþykkja það. Hann gæti sjálfur talið upp 50 ástæður til að hætta við og leyfa fyrirtækinu að fara á hausinn en það hygðist hann ekki gera.

„Enginn mun deyja á minni vakt. Punktur,“ á Rush að hafa sagt.

Þeir sem fórust voru auðkýfingurinn Hamish Harding, efst til vinstri, …
Þeir sem fórust voru auðkýfingurinn Hamish Harding, efst til vinstri, Rush sjálfur, efst til hægri, djúpsjávarkönnuðurinn Paul-Henri Nargeolet og feðgarnir Suleman Dawood og Shahzada Dawood. AFP/Samsett mynd

Koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig

Bandaríska landhelgisgæslan birti fundargerðina á föstudaginn en hún er hluti af rannsóknargögnum í rannsókn þeirra á atvikinu sem varð öllum fimm farþegum kafbátsins að bana.

Auk Rush voru breski auðkýfingurinn Hamish Harding, franski djúpsjávarkönnuðurinn Paul-Henri Nargeoleot, pakistanski viðskiptajöfurinn Shahzada Dawood og sonur hans Suleman Dawood um borð í Titan.

Leitast rannsakendur nú við að skera úr um hvað hafi leitt til slyssins til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

OceanGate stöðvaði allan rekstur köfunarleiðangra í kjölfar atviksins en það vakti eðlilega upp spurningar um öryggi og hönnun bátsins og hvort Rush og fleiri innan fyrirtækisins hefðu verið meðvitaðir um áhætturnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert