Hver var Hassan Nasrallah?

Hassan Nasrallah var 64 ára gamall.
Hassan Nasrallah var 64 ára gamall. AFP/Stringer

Hassan Nasrallah, leiðtogi hinnar íslömsku skæruliðahreyfingar sjía-múslima Hisbollah, var einn þekktasti og áhrifamesti maður Mið-Austurlanda. 

Nasrallah hefur ekki sést á almannafæri í mörg ár vegna ótta við að vera myrtur af Ísralesmönnum. Ísraelsher greinir nú frá því að hann hafi fallið í árás þeirra á höfuðstöðvar samtakanna í Beirút, höfuðborg Líbanon, í gærkvöldi.

Nasrallah gegndi lykilhlutverki í að umbreyta samtökunum í það pólitíska og hernaðarlega afl sem Hisbollah er í dag. 

Undir stjórn hans aðstoðaði Hisbollah við þjálfun liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Hamas, auk vígasveita í Írak og Jemen, og aflaði eldflauga og flugskeyta frá Íran til notkunar gegn Ísrael. Nasrallah hafði sterk tengsl við stjórn Írana. 

Hann stýrði þróun samtakanna úr vígasveit, sem stofnuð var til að berjast gegn ísraelskum hermönnum á hernumdum svæðum Líbanon, yfir í samtök sem eru öflugri en líbanski herinn. 

BBC tók saman æviágrip Nasrallah. 

Amal–hreyfingin 

Hassan Nasrallah var fæddur árið 1960 í austurhluta Beirút. Hann var elstur níu systkina og rak faðir hans litla verslun í Bourj Hammoud–hverfinu.

Nasrallah gekk til liðs við Amal–hreyfinguna, sem var þá skæruliðasveit sjía-múslíma, eftir að borgarastyrjöld hófst í Líbanon árið 1975.  

Hassan Nasrallah árið 1999.
Hassan Nasrallah árið 1999. AFP

Eftir stutta dvöl í írösku borginni Najaf, þar sem hann sótti trúarskóla sjía, gekk Nasrallah aftur til liðs við Amal. 

Nasrallah hætti hins vegar í hreyfingunni árið 1982, skömmu áður en Ísraelar réðust inn í Líbanon til að bregðast við árásum palestínskra vígamanna. 

Hann, ásamt öðrum sem sögðu sig úr Amal–hreyfingunni, stofnuðu ný samtök – íslömsk Amal. 

Nýju samtökin fengu umtalsverðan hernaðarstuðning frá íranska byltingaverðinum.

Íslamska Amal hafði aðsetur í Bekaa–dalnum og átti síðar eftir að mynda Hisbollah–samtökin. 

Leiðtogi samtakanna 32 ára gamall

Árið 1985 voru Hisbollah–hryðjuverkasamtökin formlega stofnuð. Þau birtu þá „opið bréf“ þar sem sagði að Sovétríkin og Bandaríkin væru helstu óvinir íslamstrúar og hvatt var til útrýmingar Ísraels, sem samtökin sögðu hernema lönd múslima. 

Nasrallah vann sig upp metorðastigann innan raða Hisbollah eftir því sem samtökin stækkuðu.

Árið 1992 varð hann leiðtogi samtakanna, 32 ára gamall, er forveri hans, Abbas al-Musawi, var drepinn í árás Ísraelshers. 

Fyrsti sigur araba gegn Ísrael 

Eitt af fyrstu verkum Nasrallah var að hefna fyrir morðið á Musawi. Hann fyrirskipaði eldflaugaárásir í norðurhluta Ísreals. Þá létust 29 manns í sjálfsmorðsárás á ísraelskt sendiráð í Buenos Aires í Argentínu. 

Nasrallah fór fyrir stríði gegn ísraelskum hersveitum sem endaði með brotthvarfi þeirra frá Suður–Líbanon árið 2000. Í átökunum lést elsti sonur Nasrallah, Hadi. 

Í kjölfarið lýsti Nasrallah því yfir að um væri að ræða fyrsta sigur araba gegn Ísrael. Hann hét því einnig að Hisbollah myndi ekki afvopnast og sagði að það þyrfti að endurheimta allt líbanskt landsvæði. 

Nasrallah árið 2004.
Nasrallah árið 2004. AFP

34 dagar af hörðum átökum árið 2006

Svæðið var nokkuð friðsamt þar til árið 2006 er liðsmenn Hisbollah gerðu árás á landamærin við Ísrael sem leiddi til dauða átta ísraelska hermanna. Þá voru tveir hermenn teknir í gíslingu. 

Árásin leiddi af sér hörð viðbrögð Ísraelsmanna. Loftárásir voru gerðar á vígi Hisbollah í Suður–Líbanon og suðurhluta Beirút. Á sama tíma skutu Hisbollah um fjögur þúsund eldflaugum að Ísrael. 

Rúmlega 1.100 Líbanar létu lífið, flestir óbreyttir borgarar, 119 ísraelskir hermenn og 45 óbreyttir ísraelskir borgarar í átökunum sem stóðu yfir í 34 daga. 

Gerðar voru árásir á heimili og skrifstofu Nasrallah en hann lifði þær af ómeiddur. 

Ný stefnuyfirlýsing 

Árið 2009 gaf Nasrallah út nýja pólitíska stefnuyfirlýsingu fyrir samtökin. 

Fallið var frá ákvæði um stofnun íslamsks lýðveldis sem minnst var á í stefnuyfirlýsingu samtakanna frá árinu 1985, en áfram var lögð áhersla á Bandaríkin og Ísrael sem óvini. Þá var ítrekað að Hisbollah þyrfti á vopnum sínum að halda þrátt fyrir ályktun Sameinuðu þjóðanna sem bannaði vopn Hisbollah í suðurhluta Líbanon. 

„Fólk þróast. Heimurinn hefur breyst á síðustu 24 árum. Líbanon hefur breyst. Heimsskipanin hefur breyst,“ sagði Nasrallah. 

Borgarastyrjöldin í Sýrlandi 

Fjórum árum síðar ákvað Nasrallah að Hisbollah væri að hefja „algjörlega nýjan fasa“ er liðsmenn samtakanna voru sendir til Sýrlands til þess að aðstoða Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, sem studdur var af Írönum, í borgarastyrjöldinni. 

„Það er okkar barátta, og við erum tilbúnir í hana,“ sagði Nasrallah. 

Leiðtogar súnní–múslima Líbanon sökuðu Hisbollah um að draga Líbanon inn í stríð Sýrlands og versnaði spenna milli trúarfylkinga landsins til muna. 

Efnahagskreppa

Árið 2019 leiddi efnahagskreppa í Líbanon af sér fjöldamótmæli gegn stjórnmálaelítu landsins sem lengi hefur verið sökuð um spillingu, óstjórn og vanrækslu. 

Nasrallah lýsti upphaflega yfir samúð með mótmælendum sem kölluðu eftir umbótum, en viðhorf hans breyttist er mótmælendur kröfðust algjörrar endurskoðunar á stjórnarkerfinu.

Nasrallah árið 2016.
Nasrallah árið 2016. AFP

Stigmögnun eftir hryðjuverkaárás Hamas 

8. október árið 2023, degi eftir hryðjuverkaárás Hamas, stigmögnuðust átök á milli Hisbollah og Ísrael en þau höfðu áður verið ómarkviss.

Í nóvember sagði Nasrallah í ræðu að árás Hamas hefði verið „100% Palestínumanna hvað varðaði ákvörðun og framkvæmd“ en að átökin á milli Hisbollah og Ísrael væru „mjög mikilvæg“.

Hisbollah–samtökin hafa skotið meira en átta þúsund eldflaugum að norðurhluta Ísrael og Golan–hæðum.

Ísraelsher hefur brugðist við með árásum gegn Hisbollah í Líbanon. 

Í síðustu ræðu sinni sakaði Nasrallah Ísrael um að hafa sprengt þúsundir fjarskiptatækja sem liðsmenn Hisbollah notuðu. 39 manns létru lífið og þúsundir særðust. 

Nasrallah sagði Ísraelsmenn hafa „farið yfir allar rauðar línur“ og viðurkenndi að árásin hefði verið „fordæmalaust áfall“ fyrir Hisbollah. 

Stuttu síðar gerðu Ísraelar umfangsmiklar árásir á Hisbollah sem að minnsta kosti 800 manns hafa látið lífið í. 

Hisbollah hefur ekki staðfest andlát leiðtogans, en ef yfirlýsing Ísraelhers reynist réttmæt er líklegt að kallað verði eftir hefndum, þá munu allra augu beinast að Íran og viðbrögðum þeirra. 

Uppfært 12:00:

Hisbollah hefur staðfest að Nasrallah var drepinn í árás gærdagsins. 

Borði með mynd af Nasrallah sem hengur í Tehran í …
Borði með mynd af Nasrallah sem hengur í Tehran í Íran. Við hlið myndarinnar stendur „Hisbollah er á lífi“ . AFP/Atta Kenare
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert