Segja Írani reyna að grafa undan kosningabaráttunni

Írönsk stjórnvöld virðast reyna að beita sér fyrir því að …
Írönsk stjórnvöld virðast reyna að beita sér fyrir því að Donald Trump verði ekki kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. AFP/Saul Loeb

Að sögn bandarískra stjórnvalda er Íran að beita sér í því að hafa áhrif á kosningabaráttu Donalds Trumps með fölsuðum fréttum. Þrjár ákærur voru gefnar út í gær á hendur þriggja Írana vegna víðtækrar herferðar er varðar upplýsingaóreiðu.

Ekki er langt síðan forsetaframbjóðandinn sagði Írana hafa hótað sér lífláti.

Svo virðist sem Íran, sem lengi hefur verið þekkt fyrir að standa í áhrifaaðgerðum gegn andstæðingum sínum, virðist vera ein helsta ógn Bandaríkjanna er kemur að upplýsingaóreiðu fyrir komandi kosningar þar í landi þann 5. nóvember.

Þrjár ákærur voru gefnar út í gær á hendur þriggja Írana vegna víðtækrar herferðar þar sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Merrick Garland, segir þá grafa undan kosningabaráttu Trumps.

Efnið búið til af gervigreind

Eru þeir sakaðir um að eiga þátt í fjölda falsaðra síða, sem líkjast fréttamiðlum, sem búa til fréttir og skýrslur sem séu mjög gagnrýnar á Trump. Efnið á síðunum er að mestu búið til af gervigreind.

Fölsuðu miðlarnir eru taldir endurspegla samræmda skipulagningu aðgerða af hálfu Írans til að hafa áhrif á bandaríska kjósendur.

Skýrsla var gefin út í vikunni af stafrænni rannsóknarstofu Atlantshafsráðsins þar sem varað var við að aðgerðir íranskra stjórnvalda hefðu aukist verulega í aðdraganda kosninganna í Bandaríkjunum.

AFP greinir frá því að nítján vefsíður hafi fundist sem birtu áróður frá Íran, þar af voru átta sem einblíndu mikið á bandarísku kosningarnar með það að markmiði að hafa áhrif á mismunandi hópa samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert