Maður fannst með stungusár í Linero-hverfinu í Lundi í Svíþjóð í dag og var hann fluttur á sjúkrahús.
Þá var annar maður fluttur á sjúkrahús sem er talinn hafa slasast með einhvers konar hnífstunguvopni en báðir mennirnir eru á þrítugsaldri. Frá þessu er greint á vef sænska ríkisútvarpsins, SVT.
Að sögn lögreglunnar er atvikið flokkað sem tilraun til manndráps en ástand mannsins sem varð fyrir stunguárásinni er talið alvarlegt. Ástand hins mannsins er óljóst. Lögreglan í Lundi hefur girt svæðið af en talið er að komið hafi til slagsmála.
Enginn er í haldi að sögn Fredrik Bratt, talsmanns lögreglunnar, í samtali við SVT.