Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu í Bandaríkjunum, hefur beitt neitunarvaldi og komið þar með í veg fyrir að nýtt lagafrumvarp sem snýr að því að herða eftirlit með gervigreind nái fram að ganga. Frumvarpið mætti mikilli andstöðu stórra tæknifyrirtækja.
Um tímamótafrumvarp var að ræða þar sem markmiðið var að setja fyrstu reglurnar um gervigreind í Bandaríkjunum.
Newsom segir að frumvarpið gæti hamlað nýsköpun og leitt til þess að fyrirtæki sem vinni að þróun gervigreindar myndu yfirgefa ríkið.
Öldungadeildarþingmaðurinn og samflokksmaður Newsom, Scott Wiener, sem lagði frumvarpið fram, segir að ákvörðun Newsom geri tæknifyrirtækjunum kleift að halda áfram að þróa „gríðarlega öfluga tækni“ án nokkurs konar eftirlits yfirvalda.
Samkvæmt frumvarpinu hefði þróaðasta gervigreindartæknin þurft að gangast undir öryggisprófanir, að því er segir í umfjöllun BBC.
Frumvarpið hefði skikkað fyrirtækin til að tryggja það að tæknin byggi yfir svokölluðum neyðarrofa, eða drápsrofa, (e. kill switch) sem myndi gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að slökkva á gervigreindartækni gerðist þörf á því, t.d. ef möguleg ógn stafaði af tækninni.
Þá var það gert að skilyrði að stjórnvöld myndu hafa eftirlit með allra öflugustu gervigreindartækninni, sem kallast Frontier Models.