Loftárás Írans á Ísrael var máttvana og henni hrundið að sögn Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta. Sullivan segir að Íran megi búast við alvarlegum afleiðingum í kjölfar árásarinnar.
Íran hóf loftárás á Ísrael síðdegis í dag og lét sprengjum rigna yfir borgirnar Tel Avív og Jerúsalem. Íran axlar ábyrgð á árásinni og segir íranski byltingarvörðurinn árásina gerða til að hefna fyrir dauða leiðtoga Hisbollah-samtakanna, Hassans Nasrallahs.
Hann sagði árásina alvarlega stigmögnun á spennunni í Mið-Austurlöndum.
Sullivan segir Bandaríkjaher hafa aðstoðað við loftvarnir með því að skjóta á eldflaugar úr tundurspilli hersins við Ísrael.
Matthew Miller, talsmaður utanríkisþjónustu Bandaríkjanna, ítrekaði orð Sullivans og sagði Íran mega búast við alvarlegum afleiðingum í kjölfar árásarinnar.
Hann sagði enn fremur að Bandaríkin og Ísrael myndu stilla saman strengi þegar kæmi að afleiðingunum. Hann gaf þá ekki upp hverjar afleiðingarnar yrðu.
Masoud Pezeshkian forseti Írans fagnaði árásinni og sagði hana afdráttarlaust mótsvar við yfirgangi Ísraels.
Hann sagði árásina vera í samræmi við lög og aðgerðir til að koma á friði á svæðinu.