Dagurinn í dag, 1. október, markar sigur í langri baráttu norsku samtakanna JA til kontanter, eða „Já við reiðufé“, þar sem í dag tók gildi breyting á lögum um fjármunasamninga (n. finansavtaleloven) sem Stórþingið samþykkti í vor.
Felur breytingin það í sér að frá og með í dag er kaupmönnum og seljendum hvers kyns vöru og þjónustu óheimilt að neita að taka við greiðslu í reiðufé frá viðskiptavinum sínum.
Hefur fjöldi kaupmanna og þjónustuaðila hin síðustu ár nýtt sér túlkunaratriði í orðfæri laganna til að neita að taka við greiðslu öðruvísi en rafrænt og hafa miklar umræður risið um þennan sjálftökurétt þeirra með reglulegu millibili og oft orðið háværar þar sem meginregla téðra laga er jú að greiðsla með reiðufé skuli öllum heimil.
Það var í mars sem norska ríkisstjórnin sendi frá sér tilkynningu um að dómsmála- og viðbúnaðarráðuneytið hefði lagt fram frumvarp til breytinga á lögunum með það fyrir augum að tryggja með óyggjandi hætti rétt þeirra fjölmörgu neytenda sem enn kjósa að greiða með beinhörðum peningum – að svo miklu leyti sem pappírsseðlar geta kallast það.
Raunar er það svo að niðurstöður athugunar sem framkvæmd var í aðdraganda frumvarpsins var sú að 600.000 Norðmenn væru ekki greiðslulega rafrænir að nokkru leyti, þar væri hópur sem notaði eingöngu reiðufé, nálægt tíunda hluta þjóðar sem nú nálgast sex milljónir, Norðmenn voru 5,55 milljónir um áramótin síðustu.
„Frumvarpið gengur út á að neytandi skal hafa val um að greiða með reiðufé á sölustað þar sem atvinnurekandi hefur fasta viðveru við sölu vöru eða þjónustu,“ segir meðal annars í tilkynningu ríkisstjórnarinnar frá 8. mars. Við atkvæðagreiðslu í maí reyndist almenn samstaða á Stórþinginu um breytinguna sem hlaut yfirgnæfandi jáyrði.
„Í stafrænum heimi er auðvelt að gleyma þeim stóra hópi fólks sem ekki er stafrænn,“ hefur norska ríkisútvarpið NRK eftir Emilie Enger Mehl, ráðherra dómsmála- og viðbúnaðar, en reiðuféð og notkun þess fellur undir síðari lið embættisheitis hennar, viðbúnaðinn.
Margir hafa orðið til þess að rifja mánudaginn 16. maí 2022 upp í umræðunni, þegar stafræna greiðslukerfið hrundi og útilokað var að greiða með kortum um allan Noreg, daginn fyrir sjálfan þjóðhátíðardaginn 17. maí. Ringulreiðin var ekki lítil í höfuðborginni Ósló þegar margra tuga metra biðraðir mynduðust við alla hraðbanka á meðan neytendur kepptust við að útvega sér fé til innkaupa fyrir þjóðhátíðina – ekki síst í ríkisáfengisútsölunni Vinmonopolet sem lokar klukkan 18:00 virka daga.
„Ég er einn þeirra heppnu sem geta notað rafræna greiðslumiðla,“ segir Jan Davidsen, formaður Félags eldri borgara í Noregi, við útvarpsstöðina P1 hjá NRK, „en þetta snýst um þá sem ekki geta það og að þetta [krafa um rafrænar greiðslur] hindrar þá í að gera allt sem þá fýsir að gera,“ segir hann og bendir á að rafræna byltingin hafi gengið gríðarhratt fyrir sig – ekki sé hægt að gera ráð fyrir að allir hangi á þeim vagni frá fyrsta degi.
Norskir rakarar eru fáglýjaðir yfir breytingunni – fremst þar í flokki rakarastofukeðjan Cutters sem hefur þverneitað að taka við krónu með gati í reiðufé í heilan áratug. „Við erum ósammála þessari lagabreytingu,“ segir Gunn Inger Hansen framkvæmdastjóri við NRK, „Cutters hefur verið reiðufjárfrítt í tíu ár, viðskiptavinirnir greiða með smáforritinu [appinu], greiðslukortum eða Vipps [millifærslulausn á borð við Aur og Kass á Íslandi],“ segir Hansen en keðja hennar hefur skorið sig úr hvað snertir reiðufjárstífni norskra fyrirtækja.
Til að mynda hefur keðjan neitað að gefa kvittanir og neitað að taka við greiðslufé, stefnan er að allt sé rafrænt. „Skylda til að taka við reiðufé mun hafa í för með sér aukinn kostnað, svo sem við að koma upp hirslum fyrir reiðufé auk þess sem Hansen fullyrðir að tími hársnyrtifólks keðjunnar til að vinna sína vinnu skerðist við reiðufjárgreiðslur.
En hyggst Hansen sitja við sinn keip og neita áfram?
„Cutters hefur áður verið hótað sektum. Lagabókstafurinn í dag er ekki skýr um það hver krafan raunverulega er. Bjóði ný lög þetta svart á hvítu verðum við auðvitað að fara eftir því,“ segir framkvæmdastjórinn að lokum.
Samfélagsöryggis- og viðbúnaðarstofnun Noregs, Direktoratet for samfunnssikkerhet og beredskap, hefur ítrekað sent frá sér þau ráð, meðal annarra, að öllum sé hollt að luma á nokkur þúsund krónum í reiðufé á heimilinu, ekki síst á tímum síharðnandi netárása óvinveittra ríkja sem auðveldlega geti sett rafræn greiðslukerfi út af sporinu tímabundið.
Kim Renè Hamre, formaður samtakanna JA til kontanter, gladdist í mars yfir þeim sigri sem samtökunum féll í skaut með aðgerðum ráðherra þá. „Ég segi bara að þetta er skref í áttina að því að koma vissri reglu á samfélagið,“ sagði Hamre við NRK í viðtali 21. mars og benti, eins og fleiri, á afleiðingar þess er bilanir kæmu upp í rafrænum greiðslukerfum verslana.
„Svo nú vona ég bara að frumvarpið fái meirihluta á Stórþinginu og lögunum verði svo framfylgt með því að sekta þá sem brjóta gegn réttinum til að greiða með reiðufé,“ sagði Hamre í mars.