Að minnsta kosti 45 manns fórust og margra annarra er saknað eftir að tveimur bátum sem fluttu farandfólk hvolfdi undan strönd Djibútí í Austur-Afríku.
Bátarnir lögðu af stað frá Jemen með 310 manns innanborðs en þeim hvolfdi í Rauðahafinu að sögn Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar. BBC greinir frá.
Talsmenn strandgæslunnar Djibútí segja að 61 manns sé enn saknað og standa leitaraðgerðir enn þá yfir. Þetta er enn eitt bátaslysið á einni fjölförnustu og hættulegustu sjóleið í heiminum sem er notuð af flóttamönnum og farandfólki í Afríku.
Í júní létust að minnsta kosti 56 sómalskir og eþíópískir farandverkamenn og 140 annarra var saknað eftir að báti frá Sómalíu hvolfdi í Adenflóa, undan suðurströnd Jemen. Meðal þeirra sem létu lífið voru 31 kona og sex börn.