Hættulegir lýðræðinu

Lífsstíll Halden-gengisins, fíkniefni, skotvopn, peningar, endalaus smyglvarningur, ofbeldi, hótanir og …
Lífsstíll Halden-gengisins, fíkniefni, skotvopn, peningar, endalaus smyglvarningur, ofbeldi, hótanir og rán. Fjögurra manna fjölskylda sem kunni fótum sínum ekki forráð í krafti skjótfengins ofurgróða var handtekin í Halden árið 2018 og voru tengsl hennar við fyrrverandi hermenn úr Bosníustríðinu álitin svo ískyggileg að allir lögreglumenn er að aðgerðinni komu voru grímuklæddir. Ljósmynd/Norska lögreglan

Þungir dómar yfir sex sakborningum 2. maí í fyrra í Héraðsdómi Søndre-Østfold í Halden, um 120 kílómetra suður af norsku höfuðborginni Ósló, kostuðu harðsvírað smyglgengi, sem þar hafði farið um með oddi og egg árum saman, miklar búsifjar, en starfsemi glæpahóps sem norsk lögregla kallar hættulegan lýðræðinu er þó hvergi nærri lokið.

Smygl var sérgreinin eins og svo oft er í byggðarlögum í nágrenni við landamærin að ódýra grannríkinu Svíþjóð þar sem verðmunur á við Noreg er jafnan nálægt fimmtíu prósentunum.

Sígarettur, munntóbak, áfengi og fíkniefni, allt var þetta flutt í linnulausum bílförmum til Noregs og komið í verð. Samstarfsfólkið, tveir bræður, sem hlutu þunga dóma, tveir aðrir karlmenn og tvær konur, gekk einnig um vopnað skammbyssum og hlaut helmingur hópsins dóma fyrir vopnalagabrot en um var að ræða breyttar hálfsjálfvirkar skammbyssur sem einnig var smyglað frá Svíþjóð þar sem glæpagengi eru þekkt að mun meiri skotvopnaburði en hin norsku.

Allir lögreglumennirnir grímuklæddir

Lögreglan fylgdist með sexmenningunum og brotum þeirra í tæpan áratug, frá 2012 til 2021, og þegar hún lét til skarar skríða var ein bifreiðanna sem stöðvuð var – eftir eltingarleik sem tvisvar fór yfir landamæri Noregs og Svíþjóðar – hlaðin 190.000 smyglsígarettum. Auk þess var hald lagt á áfengi, fíkniefni, skotvopn og ógrynni reiðufjár.

Breyttar skammbyssur sem ganga kaupum og sölum í Noregi og …
Breyttar skammbyssur sem ganga kaupum og sölum í Noregi og Svíþjóð og er smyglað milli landanna í stórum stíl. Ljósmynd/Norska lögreglan

Réðst lögregla raunar einnig gegn genginu árið 2018 og voru liðsmenn þess – og samstarfsaðilar – þá taldir svo háskalegir að allir lögreglumenn, ekki bara sérsveitarmennirnir, voru grímuklæddir sem að aðgerðinni komu, handtöku fjögurra manna fjölskyldu þar sem móðirin kom frá einu ríkja fyrrverandi Júgóslavíu og hafði þar ítök og tengsl við þrautþjálfaða hermenn úr Bosníustríðinu sem lagt höfðu fyrir sig afbrot á friðartímum.

Beindist athygli lögreglu að fólkinu þar sem lífsstíll þess var ekki í nokkru samræmi við þær tekjur sem norsk skattframtöl leiddu í ljós.

Gekk lögreglan svo langt í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í fyrra að segja hin dæmdu „ógn við lýðræðið“, svo rammt taldi hún að brotum þeirra kveða. Í héraðsdómi í fyrra hlutu fimm sakborninganna samtals rúmlega 23 ára fangelsi en önnur kvennanna slapp með 122 daga samfélagsþjónustu. Hlutu bræðurnir þar þyngstu dómana, átta ár og tíu mánuði og sex ár og níu mánuði.

Dómarnir þyngdir

Helmingur sakborninga, bræðurnir og konan sem hlaut dóm, tvö ár og níu mánuði, áfrýjaði til millidómstigsins lögmannsréttar sem kvað upp dóm sinn í dag á 141 blaðsíðu.

Lítið græddu bræðurnir og konan á áfrýjuninni þótt verjandi eldri bróðurins, Morten Furuholmen, berðist með kjafti og klóm fyrir sinn mann. Hlaut sá eldri tíu ár og tvo mánuði, sá yngri sjö ár og sex mánuði og konan tvö ár og tíu mánuði, skilorðsbundið að hluta.

Bendir Håvard Kalvåg saksóknari á það í samtali við NRK að samstarf við glæpagengi í Svíþjóð liggi algjörlega fyrir í málinu og það sé verulegt áhyggjuefni. Það sama hefur norska rannsóknarlögreglan Kripos bent ítrekað á síðustu misseri – að sænsk gengi sækist eftir samstarfi við þau norsku þar sem blóðsúthellingarnar séu minni í Noregi en Svíþjóð og „starfsumhverfið“ því allt vænlegra.

Eltingarleikur lögreglu við bifreið sem reyndist flytja 190.000 smyglaðar sígarettur …
Eltingarleikur lögreglu við bifreið sem reyndist flytja 190.000 smyglaðar sígarettur sem er aðeins dropi í haf umsvifa Halden-gengisins sem nú hefur verið lamað að hluta með þungum dómum. Skjáskot/Myndskeið úr lögregluþyrlu

Meðal þess sem bræðurnir tveir hlutu dóma fyrir var ofbeldi og ítrekaðar hótanir um beitingu ofbeldis beggja vegna landamæranna, en lögregla og ákæruvald eru þess fullviss að eldri bróðirinn, sem í dag hlaut á ellefta ár í dóm, sé höfuðpaur Halden-gengisins sem þó er mun stærra en sem nemur sexmenningunum dæmdu.

NRK

NRK-II (dæmdir eftir „mafíuákvæði“ norskra hegningarlaga)

NRK-III (fréttaskýring – lokka til sín unglinga til afbrota)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert