Hamas-leiðtogi var skólastjóri í skóla UNRWA

Fatah Sharif Abu al-Amine var einnig leiðtogi stéttarfélags kennara. Mynd …
Fatah Sharif Abu al-Amine var einnig leiðtogi stéttarfélags kennara. Mynd úr safni. AFP

Leiðtogi Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Líbanon, sem felldur var á dögunum í loftárás, var starfsmaður Palestínuflótta­manna­hjálp­ar­inn­ar (UNRWA). Var hann skólastjóri í skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Fatah Sharif Abu al-Amine var leiðtogi Hamas í Líb­anon en var drepinn í víðtækari loftárás gegn leiðtogum Hisbollah og Hamas á mánudag.

UNRWA segir nú að hann hafi verið skólastjóri í skóla á vegum stofnunarinnar en hann hafði verið í leyfi frá störfum síðan í mars vegna grunaðra tengsla við Hamas, eftir að Ísraelsmenn sökuðu hann og fjölda annarra starfsmanna UNRWA um að vera með tengsl við Hamas.

Wall Street Journal greinir frá. 

Bar ábyrgð á samhæfingu hryðjuverkasamtaka

Sharif bar ábyrgð á stjórnmála- og hryðjuverkastarfsemi Hamas-samtakanna í Líbanon og samhæfði árásir gegn Ísrael með líbönsku hryðjuverkasamtökunum Hisbollah, að því er Ísraelsher sagði í gær.

Ísraelar hafa lengi kvartað yfir því að UNRWA, sem sér um menntun, heilbrigðisþjónustu og aðra aðstoð við palestínska flóttamenn, sé hlutdrægt gagnvart Ísrael og að hluti starfsmanna þess séu meðlimir í Hamas og öðrum hryðjuverkasamtökum.

Fleiri starfsmenn UNRWA með bein tengsl við Hamas

Í fe­brú­ar fyrr á þessu ári sögðust Ísra­el­ar hafa sann­an­ir fyr­ir því að starfs­menn UNRWA hefðu tekið þátt í árás Hamas og fundust þá einnig göng Hamas-samtakanna undir skólum UNRWA á Gasa.

Í kjöl­farið frystu mörg ríki tíma­bundið fjár­stuðning sinn til stofn­un­ar­inn­ar, þar á meðal ís­lensk stjórn­völd.

Sam­einuðu þjóðirn­ar til­kynntu í ágúst að níu starfs­menn UNRWA hefðu að öll­um lík­ind­um átt aðild að stór­felldri hryðju­verka­árás Hamas á Ísra­el, þann 7. októ­ber 2023, þar sem hátt í 1.200 voru myrt­ir, og á þriðja hundrað gísl­ar tekn­ir. Voru þeir allir reknir.

Ísland styrkir UNRWA um 290 milljónir króna í ár

Mörg ríki hófu þó fjár­stuðning sinn við UNRWA á ný eft­ir að rann­sókn á ásök­un­um Ísra­ela hófst, en í júní á þessu ári til­kynnti Ásmund­ur Ein­ar Daðason, barna- og mennta­málaráðherra, um að ís­lensk stjórn­völd myndu hækka fjár­fram­lög til stofn­un­ar­inn­ar um 100 millj­ón­ir á þessu ári.

Sam­an­lögð fram­lög Íslands til stofn­un­ar­inn­ar munu því nema um 290 millj­ón­um króna í ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert