Hvaldimir drapst líklega vegna sýkingar

Mjaldurinn Hvaldimir.
Mjaldurinn Hvaldimir. AFP/Jorgen Ree Wiig

Mjaldurinn Hvaldimir, sem fannst dauður í Noregi í lok ágúst og er grunaður um að hafa verið rússneskur njósnari, drapst líklega af völdum sýkingar en ekki af völdum byssuskots.

Norska lögreglan greindi frá þessu í morgun.

Mjaldurinn sást fyrst undan ströndum Finnmarkar í norðurhluta Noregs árið 2019 og varð fljótt vinsæll í landinu.

Dýraverndarsamtökin NOAH og One Whale héldu því fram að hvalurinn hefði verið skotinn til bana og kærðu málið til lögreglu.

Dýralækningastofnun Noregs krufði dýrið og komst að því að 35 sm prik var fast í munni þess.

„Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að líklegur dauðdagi hafi verið bakteríusýking, líklega vegna sárs í munni hans af völdum priks sem sat þar fast,“ sagði lögreglumaðurinn Amund Preede Revheim, í tilkynningu í morgun.

„Hugsanlegt er að vegna priksins hafi Hvaldimir átt erfitt með að éta og þess vegna hafi aukin hætta verið á sýkingu,“ sagði hann einnig og bætti við: „Ekkert í rannsókninni bendir til þess að Hvaldimir hefði verið drepinn á ólöglegan hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert