Myndskeið af nauðgunum verða sýnd í dómssal

Gisele Pelicot hefur sjálf farið fram á að réttarhöldin verði …
Gisele Pelicot hefur sjálf farið fram á að réttarhöldin verði opin. AFP

Dómari í máli hinnar frönsku Gisele Pelicot hefur heimilað að myndbandssönnunargögn af kynferðisbrotum gegn Gisele verði sýnd fyrir opnum réttarhöldum.

Hafði dómarinn áður tilskipað að myndefnið yrði einungis sýnt lögfræðingum og kviðdómi þar sem það væri bæði „átakanlegt og ósæmilegt“.

Giselle gerði sjálf kröfu um að réttarhöldin yrðu opin sem hefur gert almenningi kleift að hlýða á skelfilegar lýsingar brotanna.

Voru það lögfræðingar Gisele sem fóru fram á að myndefnið yrði sýnt fyrir opnum réttarhöldum til að vekja athygli á byrlunum í kynferðisbrotamálum af þessum toga.

50 karlmenn á aldrinum 26-68 ára

Fyrrum eiginmaður hennar Dominique Pelicot hefur viðurkennt að hann hafi í tæpan áratug byrlað Gisele ólyfjan reglulega svo að hann og tugir annarra manna gætu nauðgað henni.

Dominique, sem er 71 árs gamall, tók fjölda brota upp á myndband. Auk hans eru 50 karlmenn á aldrinum 26 til 68 ára sakaðir um að hafa nauðgað Gisele.

Af hinum ákærðu játa 15 nauðgun en hinir bera fyrir sig að hafa einungis tekið þátt í kynferðislegum athöfnum.

Gisele Pelicot ásamt lögfræðingum sínum Stephane Babonneau og Antoine Camus.
Gisele Pelicot ásamt lögfræðingum sínum Stephane Babonneau og Antoine Camus. AFP

Viðkvæmir og börn geti yfirgefið salinn

Sagði dómarinn að viðstaddir í dómsal myndu hljóta viðvörun áður en myndefnið yrði sýnt til að börn og viðkvæmir gætu yfirgefið salinn á meðan. Myndefnið yrði einungis sýnt þegar þess væri brýn nauðsyn til að komast að sannleikanum.

Lögfræðingar fjölda þeirra 50 manna sem eru ákærðir fyrir að nauðga Gisele voru andvígir sýningu myndefnisins.

Fóru franskir fjölmiðlar aftur á móti í herferð gegn fyrri ákvörðun dómarans og sögðu það alvarlega árás á upplýsingafrelsi að dómarinn hygðist loka salnum við sýningu efnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka