Myndskeið af nauðgunum verða sýnd í dómssal

Gisele Pelicot hefur sjálf farið fram á að réttarhöldin verði …
Gisele Pelicot hefur sjálf farið fram á að réttarhöldin verði opin. AFP

Dóm­ari í máli hinn­ar frönsku Gisele Pelicot hef­ur heim­ilað að mynd­bands­sönn­un­ar­gögn af kyn­ferðis­brot­um gegn Gisele verði sýnd fyr­ir opn­um rétt­ar­höld­um.

Hafði dóm­ar­inn áður til­skipað að mynd­efnið yrði ein­ung­is sýnt lög­fræðing­um og kviðdómi þar sem það væri bæði „átak­an­legt og ósæmi­legt“.

Giselle gerði sjálf kröfu um að rétt­ar­höld­in yrðu opin sem hef­ur gert al­menn­ingi kleift að hlýða á skelfi­leg­ar lýs­ing­ar brot­anna.

Voru það lög­fræðing­ar Gisele sem fóru fram á að mynd­efnið yrði sýnt fyr­ir opn­um rétt­ar­höld­um til að vekja at­hygli á byrl­un­um í kyn­ferðis­brota­mál­um af þess­um toga.

50 karl­menn á aldr­in­um 26-68 ára

Fyrr­um eig­inmaður henn­ar Dom­in­ique Pelicot hef­ur viður­kennt að hann hafi í tæp­an ára­tug byrlað Gisele ólyfjan reglu­lega svo að hann og tug­ir annarra manna gætu nauðgað henni.

Dom­in­ique, sem er 71 árs gam­all, tók fjölda brota upp á mynd­band. Auk hans eru 50 karl­menn á aldr­in­um 26 til 68 ára sakaðir um að hafa nauðgað Gisele.

Af hinum ákærðu játa 15 nauðgun en hinir bera fyr­ir sig að hafa ein­ung­is tekið þátt í kyn­ferðis­leg­um at­höfn­um.

Gisele Pelicot ásamt lögfræðingum sínum Stephane Babonneau og Antoine Camus.
Gisele Pelicot ásamt lög­fræðing­um sín­um Stephane Ba­bonn­eau og Antoine Cam­us. AFP

Viðkvæm­ir og börn geti yf­ir­gefið sal­inn

Sagði dóm­ar­inn að viðstadd­ir í dómsal myndu hljóta viðvör­un áður en mynd­efnið yrði sýnt til að börn og viðkvæm­ir gætu yf­ir­gefið sal­inn á meðan. Mynd­efnið yrði ein­ung­is sýnt þegar þess væri brýn nauðsyn til að kom­ast að sann­leik­an­um.

Lög­fræðing­ar fjölda þeirra 50 manna sem eru ákærðir fyr­ir að nauðga Gisele voru and­víg­ir sýn­ingu mynd­efn­is­ins.

Fóru fransk­ir fjöl­miðlar aft­ur á móti í her­ferð gegn fyrri ákvörðun dóm­ar­ans og sögðu það al­var­lega árás á upp­lýs­inga­frelsi að dóm­ar­inn hygðist loka saln­um við sýn­ingu efn­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert