Fyrirtækinu SpaceX tókst í fyrsta sinn að grípa hluta úr eldflaug við lendingu í gær. Hlutinn var 71 metri á hæð eða tæpum fjórum metrum styttri en hæð Hallgrímskirkju.
Þessi hlutur eldflauga hafa fram að þessu verið einnota en með áfanga gærdagsins eru vonir bundnar við að hægt verði að endurnýta hann.
Fyrirtækið deildi myndbandi af lendingunni á samfélagsmiðlinum X í gær. Þar sést hvernig hlutinn lækkar flug og er gripinn með vélörmum á skotpalli fyrirtækisins í Boca Chica í Texas í Bandaríkjunum.
Skömmu áður hafði Starship-geimflaug fyrirtækisins tekið á loft í fjórða tilraunaflugi flaugarinnar. Elon Musk, forstjóri SpaceX, telur að Starship muni einn daginn ferja fólk til Mars.
Musk fagnaði áfanga dagsins á miðlinum X og sagði eldflaugarhlutann hafa lent á hárréttum stað. Áralöng vinna liggur að baki afrakstri gærdagsins. Uppfylla þurfti þúsundir skilyrða til þess að láta reyna á lendinguna. Hefðu þau ekki verið uppfyllt hefði hlutinn verið látinn brotlenda í Mexíkóflóa. Annar hluti af eldflauginni hafnaði, eins og áætlað var, í Indlandshafi.
Fram til dagsins í dag hafa eldflaugarhlutarnir verið einnota, en starfsmenn SpaceX hafa á síðustu árum unnið að leið til þess að fanga þá að nýju eftir flugtak eldflaugar. Greina mátti mikla kátínu meðal starfsmanna þegar hlutinn lenti í öruggum faðmi vélarmanna sem gripu hann.