Myndir af börnum með skotsár í höfði ekki falsaðar

Bandaríska dagblaðið hefur verið sakað um að birta falsaðar myndir.
Bandaríska dagblaðið hefur verið sakað um að birta falsaðar myndir. AFP

Bandaríska stórblaðið New York Times þvertekur fyrir það að sneiðmyndir frá Gasaströndinni, sem sýna börn sem skotin hafa verið í höfuðið, séu falsaðar.

Ljósmyndirnar fylgja aðsendri grein læknis þar sem stuðst er við vitnisburði frá tugum heilbrigðisstarfsmanna, sem lýsa því meðal annars hvernig þeir hafa séð fjölda látinna barna með skotáverka á höfði á Gasaströndinni.

Höfundurinn er skurðlæknirinn Feroze Sidhwa sem starfaði í Khan Younis á Gasa í mars og apríl. Hann segir tugi barna hafa verið skotna í höfuðið á þeim tíma.

Fór að heyra svipaðar sögur

Fyrst segist hann hafa haldið að ódæðin væru aðeins verknaður örfárra argvítugra hermanna. En þegar hann gaf sig á tal við heilbrigðisstarfsfólk sem einnig hafði starfað á svæðinu fór hann að heyra fleiri álíka sögur.

Fleiri sjálfboðaliðar á svæðinu lýsa þannig svipaðri upplifun í greininni, m.a. að sum börn á Gasaströndinni hafi hugleitt sjálfsvíg og upplifað næringarskort.

En það sem mesta athygli hefur vakið:

Af 53 læknum, hjúkrunarfræðingum og bráðaliðum, sem alla jafna sinntu börnum í neyð, höfðu 44 þeirra orðið vitni að fleiri en einu tilfelli þar sem börn undir þrettán ára aldri höfðu verið skotin í höfuð eða brjóstkassa.

Börn hópast saman undir regnhlíf við rústir byggingar í búðum …
Börn hópast saman undir regnhlíf við rústir byggingar í búðum fyrir flóttafólk í Gasa. AFP

Vill að Bandaríkin láti af hernaðarstuðningi

Sidhwa krefst þess í greininni að Bandaríkin láti af hernaðarstuðningi við Ísrael, sem hefur háð stríð á Gasaströndinni gegn Hamas-samtökunum síðan 7. október á síðasta ári.

Árás­in kostaði 1.206 manns lífið, að mestu óbreytta borg­ara, sam­kvæmt töl­um AFP sem byggðar eru á op­in­ber­um gögn­um frá Ísra­el, en þær inni­halda einnig gísla sem hafa verið drepn­ir í haldi.

Stríðsrekstur Ísra­els í Gasa hef­ur orðið meira en 41.900 manns að bana. Með stríðsrekstr­in­um hafa Ísra­el­ar aðallega drepið óbreytta borg­ara, að sögn heil­brigðisráðuneyt­is­ins sem er á yf­ir­ráðasvæði Ham­as.

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa sagt töl­urn­ar áreiðan­leg­ar.

„Sú gagnrýni á ekki við rök að styðjast“

Eftir að greinin birtist í blaðinu tóku sumir stuðningsmenn Ísraels til máls á samfélagsmiðlum þar sem þeir héldu því fram að myndirnar sem birtust með greininni væru falsaðar.

New York Times sendi svo í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fjölmiðillinn þvertekur fyrir það að sneiðmyndirnar séu „falsaðar“.

„Nýleg skoðanagrein tók saman vitnisburði frá fyrstu hendi 65 bandarískra heilbrigðisstarfsmanna, sem hafa starfað á Gasaströndinni undanfarið ár og deildu yfir 160 ljósmyndum og myndböndum með New York Times til að styðjast við ítarlegar frásagnir sínar af meðferð barna sem skotin voru í höfuð eða brjóstkassa,“ er haft eftir Kathleen Kingsbury, ritstjóra aðsendra greina hjá New York Times, í yfirlýsingunni.

„Í kjölfar birtingar ritgerðarinnar drógu nokkrir lesendur í efa að frásagnirnar væru réttar og að þrjár tölvusneiðmyndir væru falsaðar. Sú gagnrýni á ekki við rök að styðjast.“

Maður heldur á líki sonar síns, sem lést ásamt fleirum …
Maður heldur á líki sonar síns, sem lést ásamt fleirum í fjölskyldunni við loftárás Ísraela á Bureij-búðirnar fyrir palestínskt flóttafólk í Gasa. AFP

Gætu sýnt myndirnar ef þau vildu

Kingsbury heldur áfram:

„Jafnvel þó að ritstjórnin sé með ljósmyndir til að renna frekari stoðum undir sneiðmyndirnar höfum við ákveðið að þær myndir – af börnum með skotsár í hálsi og höfði – séu of skelfilegar til að birta, vegna þess að þær eru grófar að eðli.“

Þá segir hún að svipaðar ákvarðanir hafi verið teknar er varða 40 aðrar ljósmyndir og myndskeið sem læknarnir sýndu New York Times, þar sem sjá mátti svipaða áverka.

„Við stöndum við þessa grein og rannsóknina sem liggur henni til grundvallar. Allar ásakanir um að myndirnar séu falsaðar eru einfaldlega rangar.“

Sneiðmyndirnar sem fylgdu skoðanagreininni voru frá dr. Mimi Syed, lækni frá Washington sem varði einum mánuði í Khan Younis. Hann tjáði dagblaðinu að hann hefði þurft að sinna mörgum börnum, jafnvel yngri en 12 ára, sem hefðu verið skotin í höfuðið eða vinstra megin í brjóstkassann.

Dr. Sidhwa birti einnig langt svar við gagnrýninni á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert